Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og stofnandi Viðreisnar, segir vantrauststillögu þingmanna Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Flokks fólksins á hendur Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra hafa verið misheppnaða. Tillagan hafi minnkað virðingu Alþingis og í öllu falli sé almenningur ósannfærður um að grundvöllur hafi verið fyrir henni. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Vísi í dag. Óhætt er að segja að hann skjóti föstum skotum á þingmenn stjórnarandstöðunnar, þar með talið fyrrum samstarfsfélaga í Viðreisn.

Tillagan var lögð fram á þeim grundvelli að dómsmálaráðherra hefði komið í veg fyrir að Alþingi fengi afhent nauðsynleg gögn til lagasetningar og þar með brotið lög, að sögn tillöguhöfunda. Dómsmálaráðherra hafnaði þessu.

Vantraust á að vera alvarlegt mál, en ekki dægurupphlaup til þess að fá umfjöllun í fréttum.

Fáir virðist skilja um hvað málið snerist

Benedikt telur þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið ósannfærandi í rökstuðningi sínum að baki tillögunni og setur í samhengi við vantrauststillögur á hendur Bjarna Benediktssyni árið 1954 og Sigríði Andersen árið 2018.

„Í vor var svo borin upp vantrauststillaga á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Þessi tillaga var ólík hinum tveimur því nú virðist almenningur ekki hafa hugmynd um á hverju tillagan byggði. Flestir þeir sem ég spurði um málið töldu að móðgun í garð Jóns fyrir að hafa komið í gegn frumvarpi um flóttamenn eða klaufalegt orðalag að væri rótin að vantraustinu,“ segir í grein Benedikts.

Eiga ekki að leggja fram vantraust til að fá fjölmiðaumfjöllun

Benedikt gerir að því skóna að hugur hafi ekki fylgt máli hjá tillöguhöfundum og gefur í skyn að hún hafi verið lögð fram til að fanga athygli fjölmiðla: „Vantraust á að vera alvarlegt mál, en ekki dægurupphlaup til þess að fá umfjöllun í fréttum. Þó að deilt sé um embættisfærslur og skoðanir Jóns, þá er öllum ljóst að hann mun láta af embætti í vor eða sumar. Vantrauststillagan virtist flaustursleg, jafnvel illkvittin, en vakti í raun litla athygli. Ýmsir tóku þó eftir því að Tómas í Tommaborgurum sat hjá og Guðrún Hafsteinsdóttir greiddi atkvæði á móti.“

Þá segir hann að slík vinnubrögð séu síst til þess fallin að auka traust og virðingu á Alþingi: „Vinnubrögð af þessu tagi minnka virðingu fyrir þungavopnum stjórnarandstöðunnar sem helst getur sameinast heilshugar um tillögu sem fáir utan þingsins skilja. Hafi tillagan verið málefnaleg mistókst að koma því til skila til almennings. Eftir situr þing sem er klofnara en áður, heiftin ræður ríkjum og fleiri vantreysta Alþingi.“