Langtímasamningur hefur verið undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins, Isavia, og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) og Sameykis.

Samningurinn, sem gildir frá 1. febrúar 2024 til 1. febrúar 2028, byggir á Stöðugleikasamningnum sem undirritaður var í mars á almenna vinnumarkaðnum. Samningurinn kveður á um 3,25% launahækkun í ár og 3,5% hækkun á ári næstu þrjú ár, þó að lágmarki 23.750 krónur á ári.

Sameyki og FFR höfðu áður boðað aðgerðir á Keflavíkurflugvelli sem til stóð að myndu hefjast á fimmtudag. Um var að ræða ótímabundið yfirvinnu- og þjálfunarbann og tímabundnar vinnustöðvanir.

„Samningurinn felur í sér sömu launahækkanir og samið var um í Stöðugleikasamningnum. Við náðum jafnframt árangri í því að samræma ákveðin atriði hjá þeim félögum sem að honum standa og hagræðingu fyrir Isavia byggt á innanhússtillögu frá ríkissáttasemjara, því þurfa bæði félög að samþykkja hann til þess að hann haldi gildi sínu,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Verkefnið heldur áfram

Enn á eftir að semja við nokkur minni félög á almenna vinnumarkaðnum en fyrr í dag undirrituðu Samtök atvinnulífsins og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja langtímakjarasamninga, eftir viðræður hjá ríkissáttasemjara.

Opinberi markaðurinn er síðan næsta viðfangsefni. Sigríður Margrét segir mikilvægt að samið verði á sömu línu og gert hafi verið hingað til en stöðugleiki sé eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á óvissutímum. 

„Verðbólga er á niðurleið og verðbólguvæntingar eru lægri núna en þær voru fyrir ári síðan. Það má því færa rök fyrir því að raunstýrivextir séu ansi háir og það hlýtur því að styttast í að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist. Þessi samningur er liður í því að skapa efnahagslegar aðstæður sem styðja við það,“ segir Sigríður Margrét enn fremur.