Banka­ráð Lands­bankans segir að banka­sýsla ríkisins hafi verið upp­lýst um á­form bankans um að kaupa TM tryggingar af Kviku banka, sam­kvæmt bréfi banka­ráðs til Banka­sýslunnar.

Banka­sýslan óskaði eftir greinar­gerð frá bankanum um kaupin en líkt og komið hefur fram í fjöl­miðlum var banka­sýslan ekki upp­lýst um þegar skuld­bindandi til­boð var lagt fram né þegar til­boð var sam­þykkt.

Banka­ráð segir í greinar­gerð sinni þó hafa greint banka­sýslunni frá kaupunum og vísar í sam­skipti í júlí og desember 2023.

„Í tölvu­pósti frá for­manni banka­ráðs 11. júlí 2023 til Banka­sýslunnar var greint frá því að bankinn hefði haft sam­band við Kviku og lýst yfir á­huga bankans á að kaupa TM. Banka­sýslan svaraði tölvu­póstinum sam­dægurs án at­huga­semda varðandi kaupin,“ segir í greinar­gerð bankans sem skilað var til banka­sýslunnar í dag.

Form­legt sölu­ferli á TM hófst 17. nóvember 2023 og segir í greinargerð að formaður bankaráðs hafi upp­lýst bankasýsluna símleiðis undir lok desember 2023 að bankinn hefði skilað inn ó­skuld­bindandi til­boði í TM.

„Í kjöl­farið tók bankinn þátt í ferli sem lauk með því að bankinn lagði fram skuld­bindandi til­boð í fé­lagið þann 15. mars 2024. Þann 17. mars var Banka­sýslan upp­lýst um að Kvika hefði sam­þykkt skuld­bindandi til­boð bankans. Banka­sýslan setti aldrei fram at­huga­semdir eða óskaði eftir frekari upp­lýsingum eða gögnum frá banka­ráði fyrr en eftir að til­kynnt var um sam­þykki Kviku á skuld­bindandi til­boði bankans.“

Að mati banka­ráðs upp­fyllti bankinn þannig skyldur sínar til upp­lýsinga­gjafar í sam­ræmi við nú­gildandi eig­anda­stefnu ríkisins sem og sam­kvæmt samningi bankans við Banka­sýsluna frá 2010.

„Það er mat banka­ráðs að á­kvörðun um kaup á TM sé á for­ræði banka­ráðs, kaupin á TM sam­rýmist eig­enda­stefnu ríkisins og þjóni lang­tíma­hags­munum bankans og hlut­hafa. Með því að bæta tryggingum við þjónustu Lands­bankans geti bankinn boðið við­skipta­vinum sínum enn betri og fjöl­breyttari þjónustu, auk þess sem það muni styrkja reksturinn og auka verð­mæti bankans,“ segir í greinar­gerð.

„Kaup bankans á TM eru ekki talin auka á­hættu í rekstri bankans um­fram þann á­vinning sem hlýst af kaupunum. Kaupin hafi ekki á­hrif á getu bankans til að upp­fylla arð­greiðslu­stefnu bankans um að greiða að jafnaði um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hlut­hafa en muni styrkja arð­greiðslu­getu bankans til lengri tíma,“ segir þar enn fremur.