Hlutabréfaverð Tesla hefur hækkað um meira en 15% í dag eftir að kínversk stjórnvöld gáfu til kynna að þau hyggjast heimila sjálfkeyrandi-hugbúnaði (e. self-driving software) rafbílaframleiðandans í Kína, næst stærsta markaði félagsins.

Kínverskir embættismenn tjáðu fulltrúum Tesla að félagið hefði myndi fá bráðabirgðaleyfi fyrir „Full Self-Driving (FSD)“ hugbúnaðinn í, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal.

Tesla mun koma hugbúnaðinum í almenna notkun í samstarfi við kínverska tæknifyrirtækið Baidu sem mun aðstoða við atriði á borð við kortlagningu og leiðsögn (e. navigation). Samstarf við kínverskt fyrirtæki er sagt aðstoða rafbílaframleiðandann að fá grænt ljós frá eftirlitsaðilum.

Ákvörðun kínverskra stjórnvalda kemur í kjölfar heimsóknar Elon Musk, forstjóra Tesla, til Beijing í gær en þar fundaði hann með nokkrum af æðstu embættismönnum Kína.

Í umfjöllun WSJ segir að Musk hafi lagt aukna áherslu á FSD-hugbúnaðinn eftir að félagið greindi frá sínum minnsta hagnaði á fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2021. Að koma sjálfkeyrandi hugbúnaðinum í almenna dreifingu í Kína hjálpi Tesla að keppast við stóra kínverska bílaframleiðendur sem bjóða þegar upp á háþróuð hjálparkerfi fyrir ökumenn.