Sölutölur Tesla drógust saman í Kína í nýliðnum apríl en rafbílaframleiðandinn seldi 62.167 bíla í landinu, eða um 18% færri en á sama tíma í fyrra. Salan hefur þá dregist saman um 30% frá því í mars en fyrirtækið stendur frammi fyrir harðri samkeppni frá kínverskum framleiðendum.

Kínverska bílagreiningarstofnunin CPCA áætlar að heildarsala rafknúinna fólksbíla í Kína hafi aukist um 33% miðað við sama tíma í fyrra en um 800 þúsund rafbílar seldust í apríl.

Sérfræðingar innan bílaiðnaðarins í Kína telja þó að bílasýningin í Peking, sem var að klárast, muni auka sölu enn frekar í þessum mánuði.

Tesla hefur þó haldið stöðu sinni sem næststærsta rafbílafyrirtæki í Kína miðað við sölu á eftir kínverska bílafyrirtækinu BYD. Það fyrirtæki seldi meira en 300 þúsund rafbíla, eða um 49% meiri en á sama tíma í fyrra.

Í þriðja og fjórða sæti voru Changan Automobile og Geely Autio með 51.682 og 51.428 selda bíla sín á milli. Li Auto seldi þá 25.787 bíla en snjallsímaframleiðandinn Xiaomi, sem kom nýlega inn á rafbílamarkaðinn, hefur selt um sjö þúsund bíla.