Frumvarp um kaup ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag. Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja frumvarpið fram á Alþingi í næstu viku en samkvæmt því mun ríkissjóður bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði einstaklinga og taka yfir þau íbúðalán sem á því hvíla.

Umfang aðgerðarinnar er metið allt að 61 milljarði króna en frumvarpið gerir ráð fyrir að eignirnar verði keyptar á verði sem nemur 95% af brunabótamati að frádregnum veðskuldum. Frumvarpið nær ekki til húsnæðis í eigu lögaðila.

Ríkið mun stofna og fjármagna sérstakt eignaumsýslufélag, Fasteignafélagið Þórkötlu, sen hefur það hlutverk að kaupa og reka fasteignirnar. Félagið verður fjármagnað annars vegar með láni lánveitenda í Grindavík og ríkissjóðs og hins vegar með eiginfjárframlagi frá ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að hluti af framlagi ríkissjóðs sé fjármagnaður með eignum Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Í greinargerð við frumvarpið kemur fram að samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru í lok janúar 2024 skráðar um 1.150 fullbúnar íbúðir í Grindavík og um 90 ófullbúnar íbúðir en talið er að svo búnu máli að frumvarpið nái til mest 850 íbúða. Í upphafi febrúar lá fyrir að um 50 íbúðir í Grindavík hefðu eyðilagst að því marki að þær væru óviðgerðarhæfar að mati Náttúruhamfarartryggingar Íslands.

Opið verður fyrir umsóknir um uppkaup frá því að lögin taka gildi og til 1. júlí 2024.

Drög að frumvarpinu hefur verið birt í samráðsgátt og er Grindvíkingum gefið tækifæri fram á mánudag til að skila umsögn og koma afstöðu sinni á framfæri. Stefnt er á að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi í næstu viku.

Um er að ræða viðamestu aðgerðina sem stjórnvöld hafa boðað í tengslum við náttúruhamfarirnar en þegar hafa lög verið samþykkt sem snúa að stuðningi við launafólk, til að mynda.