Verðbólga jókst í Frakklandi og á Spáni á milli ára í febrúar, þvert á spár greiningaraðila. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Verðbólga í Frakklandi mældist 7,2% í febrúar sem er hæsta verðbólga í landinu síðan evran var tekin upp árið 1999. Hún mældist 7% í janúar og höfðu sérfræðingar gert ráð fyrir óbreyttri verðbólgu á milli mánaða.

Verðbólga á Spáni mældist 6,1% í febrúar, en hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir 5,5% verðbólgu í mánuðinum. Til samanburðar mældist verðbólga á Spáni 5,9% í janúar og 5,8% í desember.

Verðbólgutölurnar í löndunum tveimur gefa til kynna að verðbólga á evrusvæðinu verði viðvarandi, en tölur fyrir evrusvæðið verða birtar á fimmtudaginn næstkomandi. Hagfræðingar gera ráð fyrir að verðbólgan dragist saman á milli mánaða, fari úr 8,6% í janúar niður í 8,1% í febrúar.