Verðbólga á Spáni mældist 5,8% milli ára í desember, sem er mun minni verðbólga en hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir.

Verðbólgan dróst verulega saman á milli mánaða, en hún var 6,8% í nóvember. Talið er að verðbólgutölurnar gefi góð fyrirheit fyrir evrusvæðið, en verðbólga í Frakklandi og Þýskalandi í desember var einnig töluvert undir spám hagfræðinga.

Ef þróunin reynist svipuð í öðrum löndum álfunnar gæti evrópski seðlabankinn ákveðið að draga úr hraða vaxtahækkananna.

Hagfræðingar spá því að verðbólga á evrusvæðinu muni mælast 9,7% í desember, en verðbólgutölur evrusvæðisins í heild sinni verða gefnar út á föstudaginn í þessari viku.