Kynningarfundur var haldinn í morgun á vegum kínverska sendiráðsins og utanríkisráðuneytisins á Hilton Reykjavík Nordica en hann markaði upphaf hinnar svokölluðu íslensk-kínversku streymisviku.

Um er að ræða vikulangan viðburð þar sem kínverskir áhrifavaldar kynna og selja íslenskar vörur á samfélagsmiðlum í Kína.

Þetta er í annað sinn sem streymisvikan er haldin en sú fyrsta fór fram í maí í fyrra með góðum árangri. Þá seldu kínverskir áhrifavaldar íslenskar vörur fyrir 700 milljónir króna á tveimur dögum en salan fór fram á kínverska samfélagsmiðlinum Douyin, kínversku útgáfunni af TikTok.

Á fyrsta degi streymisvikunnar seldi fyrirtækið Bioeffect til að mynda vörur fyrir 300 milljónir króna en sú sala samsvaraði fjórðungi af allri sölu fyrirtækisins til Kína fyrir árið 2022.

Það var fjölmennt á fundinum í morgun á Hilton Reykjavík Nordica.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Á þessu ári verður sjónum beint að möguleikum með lifandi streymiskynningum og rafrænum viðskiptum með áherslu á svokallað cross-border e-commerce sem einfaldar erlendum fyrirtækjum leið inn á markað í Kína.

He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, hélt opnunarræðu og sagði að löndin tvö væru um þessar mundir að stunda viðskipti samkvæmt þeim langtímaramma sem kínverska þjóðin vill sjá þróast. Hann bætti við að kínverski efnahagurinn væri enn að vaxa og að millistéttin þar í landi bjóði enn upp á mikla möguleika.

„Árið 2023 nam netsala í Kína 15,42 billjónum kínverskra júana, eða um 2,13 billjónum Bandaríkjadala. Kínversk stjórnvöld hafa einnig sett sér metnaðarfull markmið um 5% hagvöxt á þessu ári en í rauntölum samsvarar það fjórföldum vexti frá árinu 2018.“

Ingólfur Friðriksson, deildarstjóri Evrópumála hjá utanríkisráðuneytinu, tók einnig til máls og benti á möguleika á sviðum jarðvarma og hreinnar orku. Hann sagði jafnframt að traust og gagnsæi væru lykilatriði í samskiptum ríkjanna.

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, tók í sama streng og sagði að Kína væri mjög mikilvægur markaður fyrir Ísland. Hann sagði að streymisvikan hafi gengið vel í fyrra og sér fram á að hún eigi jafnvel eftir að ganga betur í ár.

„Á meðan útflutningur til Kína hefur vaxið hægt og rólega undanfarin ár þá eru enn margir möguleikar fyrir íslensk fyrirtæki. Fyrirtæki eins og Marel og Össur hafa til að mynda náð ótrúlegum árangri í að markaðssetja matvæla- og heilbrigðisvörur á þann markað,“ sagði Pétur.

Sendiherrann lauk svo máli sínu með tilvísun í gamalt kínverskt orðatiltæki sem á sér rætur að rekja til Ming-keisaraveldisins (1368-1644) og varð vinsælt á tímum Qing-keisaraveldisins (1644-1911). Í stuttu máli ber orðatiltækið saman komu vorsins með blómum og samvinnu fólks.

„Vorið kemur ekki með aðeins einu blómi, en hundrað blómstrandi jurtir gefa garðinum hins vegar fallegt vor. Með öðrum orðum tekur það heilan sal af fólki eins og ykkur til að láta þessa streymisviku á milli þessara tveggja þjóða ganga vel.“