Verðmætasköpun er hverju samfélagi mikilvæg enda er það svo að eftir því sem verðmætasköpun eykst aukast lífsgæði landsmanna samhliða. Öflugt atvinnulíf er helsti drifkraftur verðmætasköpunar hvers samfélags og blessunarlega hefur íslenskt atvinnulíf tekið stórstigum framförum í áranna rás.

Með dugnaði og elju hefur atorkusömum frumkvöðlum hér á landi tekist að byggja upp þó nokkur fyrirtæki sem í dag eru ekki aðeins leiðandi á sínu sviði hér á landi heldur einnig á alþjóðavísu.

Aftur á móti er áhyggjuefni hvað virðing fólks fyrir peningum og hvernig verðmæti verða til virðist fara sífellt minnkandi. Birtingarmyndirnar eru nær óteljandi en botnalaus halli í rekstri ríkisins og Reykjavíkurborgar er nærtækasta dæmið. Hallarekstur ríkis- og borgarsjóðs er afleiðing óábyrgra stjórnmálamanna sem vaða áfram með loforð um síaukin útgjöld í von um að hljóta náð fyrir augum kjósenda. Það sorglega er að þessi tækifærissinnaða aðferðafræði, sem byggir á engri raunverulegri hugmyndafræði, virðist skila sífellt betri árangri.

Samhliða stækkar báknið á ógnarhraða og engin teikn virðast á lofti að það muni dragast saman á næstu mánuðum og árum. Opinberir starfsmenn leiða launaþróun í landinu og njóta að auki mun ríkara starfsöryggis en launafólk á almennum vinnumarkaði. Verðmætasköpun hagkerfisins fer fram á almennum vinnumarkaði og því sérlega óheppilegt að opinberi vinnumarkaðurinn sé meira aðlaðandi í augum vinnandi fólks en sá almenni. Almenni markaðurinn á að vera leiðandi í þróun launa og annarra starfskjara, enda fjármagnar hann opinbera kerfið. Því miður er staðan þveröfug og opinberir starfmenn fá að jafnaði hærri laun, vinna styttri vinnuviku og njóta auk þess ríkara starfsöryggis.

Virðingarleysið fyrir peningum skattgreiðenda fer því miður minnkandi bæði innan stjórnmálanna sem og í samfélaginu almennt. Lausnin við öllum vandamálum þjóðarinnar virðist vera að ríki eða sveitarfélög borgi brúsann. Gott dæmi um þetta var rakið í nýlegum fréttum Viðskiptablaðsins. Þar lýsti Katrín Atladóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, hversu tilgangslaus íbúaráðin, sem Píratar komu á í Reykjavík, séu í raun og veru. Í kjölfarið beindi Viðskiptablaðið fyrirspurn til borgarinnar um kostnað íbúaráðanna og fékk þau svör að íbúaráðin kosti útsvarsgreiðendur 62 milljónir króna á þessu ári. Í stóra samhenginu er það ekki stór upphæð en lýsir aftur á móti því fullkomna virðingarleysi sem ríkir innan borgarstjórnar fyrir skattpeningum. Virðingarleysi Pírata á annarra manna fjármunum ætti þó engum að koma á óvart enda virðist það helsta hugmyndafræðilega málefni Pírata að taka upp borgaralaun – sem sagt að eyða skattpeningum í að greiða fólki fyrir iðjuleysi.

Í vikunni birti Morgunblaðið viðtal við umboðsmann handboltamanna þar sem fjárskortur íþróttahreyfingarinnar hér á landi bar að sjálfsögðu á góma. Þar lýsti hann yfir furðu sinni á að íþróttafólk þyrfti sjálft að standa straum af kostnaði við æfinga- og keppnisferðir á erlenda grundu. Að sjálfsögðu ætti ríkið að sjá um þann kostnað og vera með íþróttafólkið á launum. Viðskiptablaðið fagnar því að sjálfsögðu að á Ísland eigi öflugt íþróttafólk sem keppir undir merkjum þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi. Aftur á móti er það ósanngjörn krafa að ætlast til þess að misgóðu íþróttafólki sé haldið uppi af skattgreiðendum. Í þessu samhengi er oft bent á að ríkið greiði listamönnum laun en ein vitleysa réttlætir ekki aðra. Það ætti að vera sjálfsögð krafa að það sé á ábyrgð hvers og eins einstaklings að velja sér þá atvinnu sem gerir honum kleift að afla sér tekna af eigin dáðum, án aðkomu skattgreiðenda.

Þau lífsgæði sem Íslendingar njóta í dag eru langt frá því að vera sjálfsögð og stefnir í óefni ef ekki tekst að fá samfélagið til að átta sig á og bera virðingu fyrir hvar verðmætin verða til. Kröfur um aukna skattpíningu á atvinnulíf – og þá sérstaklega mikilvægustu útflutningsgreinar þjóðarinnar – aukin útgjöld, fjölgun ríkisstarfsmanna og aðrar hugmyndir sem draga þróttinn úr atvinnulífinu eru til þess fallnar að draga úr lífsgæðum. Það er því aðkallandi að ráðamenn og samfélagið allt temji sér meiri virðingu fyrir fjármunum skattgreiðenda og þeim verðmætum sem til verða á almennum vinnumarkaði, því ólíkt því sem margir halda er þetta ekki óþrjótandi auðlind.