Ástæðan fyrir því að Dr. Football er vinsælt er stöðugleikinn. Við þekkjum leikinn inn og út og erum með menn sem hafa komið nálægt fótboltanum frá ýmsum áttum," segir Hjörvar Hafliðason um hlaðvarpið Dr. Football sem fagnar nú fimm ára afmæli.

Spurður hvaðan nafnið Dr. Football kemur segir Hjörvar sænskan félaga sinn eiga heiðurinn að nafninu.

„Ég og sænskur félagi minn vorum að fá okkur í glas og hann var alltaf að segja einhverjar fótboltasögur, nema hvað að ég var alltaf að leiðrétta hann. Síðar um kvöldið var hann að kynna mér fyrir vini sínum. Þá bendir hann á mig og segir „This guy is some kind of a Dr. Football.“

Kröfuharðir hlustendur tilbúnir með gula spjaldið

Hjörvar segir lykilinn á bak við velgengni Dr. Football þá staðreynd að fótbolti er hans eina áhugamál.

„Ég hef engin önnur áhugamál en fótbolta og er alltaf með augun á boltanum. Ég held að munurinn á Doktornum og mörgum öðrum fótboltaþáttum sé sá að áhuginn hjá mér er ennþá barnslega mikill. Þetta þýðir það að maður verður ábyggilega aldrei góður að veiða eða í golfi eða neinu slíku því allur fókusinn fer í fótboltann. Um leið og ég hætti að horfa og fer að missa af hlutum þá munu hinir kröfuhörðu hlustendur Dr. Football gefa mér „yellow card“, því þeir átta sig alltaf strax á því ef ég er eitthvað utan við mig eða er ekki að fylgjast með upp á tíu.“

Fjallað er nánar um Dr. Football í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.