Íslenskir aðalverktakar, ÍAV, töpuðu 1,7 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 6 milljóna hagnað árið áður. Tekjur drógust saman um 13,5% milli ára og námu 15,3 milljörðum króna, samkvæmt ársreikningi.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrifa COVID-19 gætti á rekstur félagsins á árinu. Tekjusamdráttur og ófyrirséður aukinn kostnaður „t.d. vegna fjarveru starfsmanna í sóttkví og einangrun“ hafði áhrif á afkomu ársins. Einnig voru seinkanir á afhendingu á byggingarefni á verkstöðum vegna faraldursins.

Eigið fé ÍAV jókst um 471 milljón milli ára og nam 1,5 milljörðum króna í árslok 2020 en fram kemur að hluti skulda félagsins við hluthafa hafi verið umbreytt í hlutafé. Skuldir lækkuðu um 770 milljónir og voru 2,8 milljarðar króna í lok árs.

Tjón af völdum riftunar 105 Miðborgar á verksamningi um uppbyggingu á Kirkjusandi fyrr í ár er sagt verulegt, bæði vegna verkkostnaðar sem ekki hefur fengist greiddur og einnig vegna þess orðspors sem félagið hafi byggt upp í áratugi.

Sjá einnig: Gagnstefnir ÍAV fyrir 3,9 milljarða

Þóroddur Ottesen Arnarson fjármálastjóri hefur tekið við sem forstjóri ÍAV af Sigurði Ragnarssyni en í lok síðasta árs var ákveðið að hann yrði starfandi stjórnarformaður félagsins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Sigurður mun því áfram taka virkan þátt í rekstri félagsins.