Innrás Rússlands í Úkraínu sem hófst fyrir þremur vikum hefur víðtæk áhrif um allan heim og afleiðingarnar munu hugsanlega halda áfram að koma fram um langt skeið. Frá því að innrásin hófst hafa að minnsta kosti tvær milljónir manna flúið Úkraínu og mannfall og eignatjón mikið í stærstu borgum landsins.

Ein þeirra borga sem hefur orðið fyrir hvað mestu tjóni er Karkív, sem telur 1,5 milljónir íbúa og er nálægt landamærum Rússlands í austri. Fyrir innrásina hafði Karkív með árunum orðið að tækniog nýsköpunarmiðstöð Úkraínu, en þar höfðu yfir 500 tæknifyrirtæki komið upp starfsemi og hafði iðnaðurinn vaxið um tugi prósenta á hverju ári.

Uppgangur Karkív var niðurstaða markvissrar vinnu stjórnvalda undanfarin ár til að koma á fót öflugum tæknigeira líkt og finnst víðar í Austur-Evrópu. Alþjóðleg tæknifyrirtæki hafa í síauknum mæli litið til Úkraínu vegna vel menntaðs starfsfólks og varið hundruðum milljónum Bandaríkjadala í fjárfestingar, samkvæmt greiningu frá ráðgjafafyrirtækinu Qvartz.

Þrátt fyrir að laun í Úkraínu séu lág í alþjóðlegum samanburði er um að ræða hálaunastörf á innlendan mælikvarða.

Nú hafa fyrirtæki á borð við erlenda vefsíðuframleiðandann Wix, námstæknifyrirtækið Canva og fleiri hins vegar þurft að flytja þúsundir starfsmanna burt frá Karkív og öðrum borgum í Úkraínu vegna innrásarinnar. Þá er ótalinn sá fjöldi þarlendra þjónustufyrirtækja, sem bjóða upp á verktaka til að sinna rannsóknum og þróun, forritun og annarri þjónustu, sem neyðst hefur þurft að gera slíkt hið sama. Áhrifin teygja sig þannig til nýsköpunarfyrirtækja um allan heim.

Hækkandi ávöxtunarkrafa

Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyris Venture Management, telur áhrif stríðsins á íslenska vísisjóði helst koma fram í gegnum það ástand sem almennt ríki á mörkuðum. Aukin óvissa, hækkandi vextir og hækkandi ávöxtunarkrafa hafi áhrif á vísisjóðina og þeirra fjárfestingar.

„Beinni áhrif lúta helst að þeim tilvikum þar sem finna má dæmi um að íslensk sprotafyrirtæki hafi útvistað forritun eða annarri slíkri þjónustu til Úkraínu og Hvíta-Rússlands. Ég þekki engin slík dæmi sjálfur en þetta eru hvoru tveggja lönd sem bjóða töluvert mikið upp á þjónustu af þessu tagi," segir Örn en það kæmi honum ekki á óvart ef íslensk sprotafyrirtæki hafi nýtt sér þá þjónustu.

Þá segir Örn að sjóðir Eyris Venture Management séu nær einvörðungu fjármagnaðir með íslensku fjármagni og að þeirra fjárfestingarstefna byggi á að fjárfesta að langmestum hluta hérlendis eða í íslenskum félögum.

„Við höfum ekki verið með neina meðfjárfesta í neinum verkefnum nema þá mjög öfluga og trausta aðila frá Norður-Evrópu og Bandaríkjunum og erum því ekki að lenda í vandræðum með að kalla inn fjármagn vegna stöðunnar."

Fjallað var um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .