Gengi krónunnar hefur haldist til­tölu­lega stöðugt það sem af er ári eftir snarpa lækkun sem gekk þó til baka í haust vegna jarð­hræringa á Reykja­nes­skaga.

Sam­kvæmt Peninga­málum Seðla­banka Ís­lands er gengi krónunnar á árinu þó 0,8% lægra gagn­vart meðal­tali gjald­miðla helstu við­skipta­landa en við út­gáfu Peninga­mála í febrúar.

Seðla­bankinn bendir á að fram­virk gjald­eyris­sala hefur aukist á árinu „sem kann að endur­spegla væntingar um hækkun á gengi krónunnar.“

„Fjár­magns­inn­flæði vegna ný­fjár­festingar hefur einnig aukist og gjald­eyris­kaup líf­eyris­sjóða hafa minnkað frá upp­hafi ársins. Á móti hefur hreint inn­flæði vegna greiðslu­korta­notkunar minnkað í vetur,” segir í Peninga­málum.

Seðla­bankinn beitti inn­gripum á gjald­eyris­markaði síðast­liðinn febrúar þegar hann keypti gjald­eyri fyrir um 9,2 milljarða króna, til að bregðast við miklu er­lendu inn­flæði inn á skulda­bréfa­markaðinn.

Mun það hafa verið í fyrsta skipti síðan í maí 2022 sem Seðla­bankinn kaupir gjald­eyri.

„Velta á gjald­eyris­markaði hefur heldur minnkað á síðustu tveimur árum sem gæti bent til þess að markaðs­aðilar þurfi í minna mæli að leita inn á gjald­eyris­markaðinn enda hefur verið á­gætt jafn­vægi á utan­ríkis­við­skiptum og inn- og út­flæði gjald­eyris undan­farið.“

Gengis­vísi­tala krónunnar var rúm­lega 195 stig á fyrsta fjórðungi ársins sem er svipað og gert var ráð fyrir í Peninga­málum í febrúar.

„Það sem af er öðrum fjórðungi hefur við­skipta­vegið gengi krónunnar lækkað lítil­lega sem er einnig í takt við það sem spáð var í febrúar. Sam­kvæmt grunn­spánni helst gengi krónunnar til­tölu­lega stöðugt út spá­tímann og verður svipað og gert var ráð fyrir í febrúar­spá bankans,“ segir að lokum í um­fjöllun Peninga­mála um krónuna.