Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Landsbanka Íslands, Seðlabanka Íslands, Valitor, Reiknistofu bankanna, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og íslenska ríkið af kröfu Lífeyrissjóðs bankamanna þess efnis að samkomulagi aðila, sem gert var árið 1997, yrði breytt á þann veg að bakábyrgð stefndu á skuldbindingum Hlutfallsdeildar sjóðsins yrði endurvakin og þeim gert að greiða sjóðnum rúma fimm milljarða króna.

Aðalmeðferð málsins fór fram í síðasta mánuði og var efni hennar gerð skil í Viðskiptablaðinu. Áður en ráðist var í hlutafélagavæðingu Landsbankans bar sjóðurinn nafnið Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbankans og Seðlabanka Íslands en þar var á ferð samtryggingarsjóður með bakábyrgð aðila sem í hann greiddu.

Þegar kom að sölu Landsbankans var afráðið að gera áfallna skuldbindingu upp, fella bakábyrgðina niður og að félögin myndu greiða 14,4% iðgjald eða alls 18,4% með framlagi starfsmanna. Þá var hlutfallsdeild sjóðsins jafnframt lokað og starfsfólki boðið að velja á milli hvort það héldi sig við hana eður ei.

Tryggingarfræðilegar forsendur þess uppgjörs stóðust ekki en árið 2007 var gert viðbótarsamkomulag sem fól í sér að aðildarfélögin skuldbundu sig til að taka þátt í rekstrarkostnaði sjóðsins auk þess að greiða á annan milljarð króna vegna launahækkana umfram áætlanir. Enn fremur var samið um að aðilar ættu engar frekari kröfur á hendur hvor öðrum vegna málsins.

Eftir því sem staða sjóðsins versnaði frekar – réttindi sjóðsfélaga hafa í tvígang verið skert vegna hennar – var ákveðið að höfða umrætt dómsmál. Að mati sjóðsins var samkomulagið ósanngjarnt og taldi hann rétt að breyta því á grunni 36. greinar samningalaga eða meginreglu samningaréttarins um brostnar forsendur.

Stærsta krafa málsins, ríflega fjórir milljarðar króna, auk fjármuna sem síðar kynnu að falla til við að bakábyrgðin myndi drepa úr dróma, beindist að Landsbanka Íslands. Bankinn byggði varnir sínar meðal annars á því að sýkna bæri hann sökum aðildarskorts þar sem hann hefði ekki verið aðili að samkomulaginu. Gamli Landsbankinn hefði vissulega verið það en engar skuldbindingar hefðu flust yfir á bankann tengdar samkomulaginu þótt bankinn hefði tekið þátt í rekstrarkostnaði og skipað menn í stjórn sjóðsins.

Aðildarskortur Landsbankans

Að mati dómsins hafði lífeyrissjóðurinn ekki fært nein haldbær rök fyrir því að Landsbankinn hf. hefði „með samningi eða á annan hátt“ yfirtekið þær skyldur sem hvíldu á Landsbanka Íslands hf. á grunni samkomulagsins. Ekki væri að sjá að ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins við fall gamla bankans hefðu flutt þessar skyldur á nýja bankann.

Íslenska ríkinu var stefnt til vara kæmi til þess að Landsbankinn yrði sýknaður. Í dóminum sagði að meginregla samningaréttarins um óréttmæta auðgun gæti átt við í máli þar sem fjárkrafa væri gerð en hún gæti ekki haft áhrif þar sem krafist væri breytingar á samkomulagi.

Hvað varðar málsástæður um brostnar forsendur og ógildingarreglur samningaréttarins benti dómurinn á að við gerð samkomulagsins hafi ekki verið aðstöðumunur milli aðila. Þvert á móti þá hefði lífeyrissjóðurinn notið aðstoðar tryggingastærðfræðings við gerð hans og ekki væri annað að sjá en að samkomulagið byggði á yfirveguðu mati aðila.

Dómurinn benti enn fremur á að samkvæmt ársreikningi sjóðsins frá árinu 2017 þá væru skuldabréfaeign Hlutfallsdeildarinnar væri færður til bókar á afskrifuðu kostnaðarverði þar sem tekin hefði verið ákvörðun um að halda þeim til gjalddaga. Væru þau hins vegar færð á markaðsverði yrði bókfærð eign sjóðsins 5,6 milljörðum hærri en ella. Staða sjóðsins væri því betri en byggt var á í matsgerð sem aflað var í málinu.

Braut ekki gegn jafnræðisreglu

Til þrautavara var þess krafist að viðurkennt yrði með dómi að ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum við sjóðinn frá áramótum 1998. Laut sú krafa að sjóðsfélögum sem voru starfsmenn Landsbanka Íslands fyrir þann tíma. Í reynd hefði ábyrgð ríkisins aldrei fallið niður.

Meðal annars var á því byggt að ósanngjarnt væri að ríkið tæki ábyrgðina ekki á sig í ljósi þess að ríkið hefur yfirtekið fjöldan allan af lífeyrisskuldbindingum undanfarin ár. Í raun nemur fjárhæðin milljarðatugum. Fæli það í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að taka ekki yfir ábyrgðina gagnvart Hlutfallsdeildinni að auki.

„Hvað varðar tilvísun [til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar] þá er ekki unnt að líta svo á að samningar á borð við þá sem nefndir eru hér að framan geri það að verkum að stefnda íslenska ríkinu sé skylt á grundvelli umrædds ákvæðis stjórnarskrárinnar að ábyrgjast með almennum hætti lífeyrisskuldingar í öllum íslenskum lífeyrissjóðum,“ segir í dóminum.

Allir stefndu voru því sýknaðir en málskostnaður milli aðila var látinn niður falla þrátt fyrir að engin krafa sjóðsins hafi náð fram að ganga.