*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 24. október 2021 17:03

Telja samkomulagið ósanngjarnt

Verði fallist á kröfur Lífeyrissjóðs bankamanna er viðbúið að milljarða kostnaður muni falla á Landsbankann.

Jóhann Óli Eiðsson
Jónas Fr. Jónsson flutti málið fyrir hönd Lífeyrissjóðs bankamanna.
Haraldur Guðjónsson

Lífeyrissjóður bankamanna telur ósanngjarnt að sjóðurinn verði látinn bera hallann af því að forsendur samkomulags, sem gert var við ríkið og Landsbankann árið 1997, brugðust. Afleiðing þess er að tryggingafræðileg staða hlutfallsdeildar sjóðsins fer versnandi og í tvígang hefur sjóðurinn þurft að skerða réttindi sjóðsfélaga.

„Staðreyndirnar sem blasa við okkur er að samkomulagið hafi verið ósanngjarnt, forsendur þess hafi brostið og það hafi leitt til auðgunar hjá stefndu. Vegna þessa telur [Lífbank] rétt að samkomulaginu verði breytt, annars vegar á þann veg að staða áfallinna skuldbindinga verði hækkuð og að tryggt verði með bakábyrgð að ekki muni koma til réttindaskerðinga síðar,“ sagði Jónas Fr. Jónsson, lögmaður Lífbank, í málflutningsræðu sinni.

Í málinu er byggt á 36. gr. samningalaga en sú heimilar dómstólum að breyta eða víkja til hliðar ósanngjörnum samningsskilmálum eða ógilda samning eins og hann leggur sig. Til viðbótar er byggt á meginreglunni um brostnar forsendur en nokkuð var deilt um það hvort hún fæli aðeins í sér heimild til að ógilda samninga eða hvort hægt væri að brúka hana til að breyta þeim. 

Verði fallist á kröfu um breytingu samningsins mun það þýða að aðildarfyrirtæki munu þurfa að greiða ríflega fimm milljarða vegna fyrri ára. Þá er einnig höfð krafa um að bakábyrgð þeirra, sem samið var um að felld yrði niður með samkomulaginu, verði virkjuð á nýjan leik. 

Að mati Lífbank var talsverður aðstöðumunur á aðilum. Mjög hafi verið þrýst á gerð samningsins af hálfu ríkisins enda hefði bakábyrgðin getað haft áhrif til lækkunar á söluverð Landsbankans. Því til viðbótar hefði samkomulagið verið bersýnilega ósanngjarnt vegna atvika sem síðar komu til.

Ríkið yfirtekið 30 milljarða

Til þrautavara er þess krafist að ríkið beri ábyrgð á öllu heila klabbinu. Uppgjörið árið 1997 hafi verið ófullnægjandi og það sem út af standi eigi að falla á ríkið. Lífeyrisréttindin væru stjórnarskrárvarin og eins og staðan væri nú væri verið að ganga á réttindi sjóðsfélaga. „Þessu viðbótar má nefna að önnur niðurstaða bryti freklega gegn jafnræðisreglunni. Eftir hrunið yfirtók ríkið skuldbindingu vegna banka- og aðstoðarbankastjóra Landsbankans og hefur yfirtekið fjölda skuldbindinga frá hinum ýmsu félögum,“ sagði Jónas en á árunum 2014-18 yfirtók ríkið rúmlega 30 milljarða króna í lífeyrisskuldbindingum, meðal annars 4,8 milljarða vegna Bændasamtaka Íslands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.