Minnst þrír innherjar tengdir stjórn og yfirstjórn Íslandsbanka tóku þátt í lokuðu útboði Bankasýslunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í gærkvöldi fyrir samtals 93 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar .

Miðað við fyrirliggjandi dagslokagengi gærdagsins voru hlutirnir alls 97 milljóna króna virði við kaupin, eða 4 milljónum yfir kaupverði þremenninganna.

Ari Daníelsson, stjórnarmaður í bankanum, keypti stærsta einstaka hlutinn af þeim, 469 þúsund bréf fyrir tæpar 55 milljónir króna, eða 2,4 milljónum krónum minna en gangvirði slíks hlutar á þeim tíma.

Ríkharður Daðason fagfjárfestir, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta og sambýlismaður Eddu Hermannsdóttur markaðs- og samskiptastjóra bankans, keypti 230.657 hluti fyrir 27 milljónir króna á hátt í 1,2 milljónum undir markaðsverði í gegn um félag sitt RD Invest, og Ásmundur Tryggvason framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta keypti 96.108 hluti fyrir 11,2 milljónir króna á 480 þúsund undir Kauphallarverðinu.

Leitað til fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila í lokuðu útboði
Söluferlið hófst rétt eftir lokun markaða síðdegis í gær og lauk klukkan 21:30 sama kvöld. Útboðsgengið var 117, en dagslokagengi gærdagsins var 122, og bréfin því seld á 5 krónum undir þáverandi markaðsvirði. Bréf bankans hækkuðu hóflega í dag og gangvirði þeirra nam 124,6 krónum við lokun markaða nú síðdegis.

Alvana er að útboðsgengi sé aðeins undir markaðsgengi þegar svo stór hlutur þegar skráðs félags er seldur í heilu lagi, eins og Viðskiptablaðið fór yfir fyrr í kvöld . Í tilkynningu frá Bankasýslunni í morgun var söluferlinu lýst sem tilboðsfyrirkomulagi sem „hæfum innlendum og erlendum fjárfestum, þ.e. fagfjárfestum og viðurkenndum gagnaðilum“, var boðið að taka þátt í.

Haft var eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í sjónvarpsfréttum nú í kvöld að bróðurpartur hlutarins hefði farið til lífeyrissjóða, en veruleg umframeftirspurn var í útboðinu á því gengi sem selt var á.

Í samantekt STJ Advisors, ráðgjafa í söluferlinu, á útboðinu kemur fram að alls hafi 430 boð borist á útboðsgenginu þar sem það hafi að stórum hluta verið langtímafjárfestar og þátttakendur í hlutafjárútboði við skráningu bankans síðasta sumar.

Þá hafi útboðsafslátturinn verið 4,1% en í sambærilegum útboðum í Evrópu á árinu að jafnaði verið 6,4% útboðsafsláttur og 8,7% frá því stríðið í Úkraínu hófst.

Vegleg úthlutun til Íslandssjóða og erlendra fjárfesta í frumútboðinu vakti spurningar
Í frumútboði á bankanum samhliða skráningu á markað síðasta sumar voru boð fjölda fjársterkra einkafjárfesta skert og þeir fengu einni milljón króna úthlutað sem var hámarksúthlutun var til einstaklinga.

Þó útboðið síðasta sumar hafi almennt þótt heppnast vel voru sett spurningarmerki á fjármálamarkaði varðandi úthlutun til sumra þeirra erlendu fjárfesta sem fengu úthlutun í útboðinu . Þá var einnig sett spurningamerki að Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, hafi fengið hæstu úthlutana af innlendum sjóðstýringafélögum. Tveir sjóðir Íslandssjóða voru einu innlendu verðbréfasjóðirnir á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa bankans að lokinni úthlutuninni með 0,4% hlut hvor.