Bankasýsla ríkisins staðfesti í morgun að söluverð í söluferli á 22,5% hlut í Íslandsbanka væri 117 krónur á hlut og því nam söluvirði hlutarins 52,65 milljörðum króna. Líkt og fram kom í gærkvöldi þá fjölgaði fjölgaði Bankasýslan seldum hlutum í söluferlinu úr 400 milljónum í 450 milljónir hluti.

„Veruleg umfram eftirspurn var í útboðinu og bæði innlendir og erlendir hæfir fjárfestar sýndu útboðinu mikinn áhuga,“ segir í tilkynningu Bankasýslunnar.

Söluferlið hófst rétt eftir fjögurleytið í gær og lauk kl. 21:30. Salan fór fram með tilboðsfyrirkomulagi á þegar útgefnum hlutum í Íslandsbanka til hæfra innlendra og erlendra fjárfesta, þ.e. fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila.

Bankasýslan hefur skuldbundið sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum í 90 daga eftir að viðskiptin ganga í gegn, nema með samþykki umsjónaraðila útboðsins eða í tengslum við hvers konar endurkaup Íslandsbanka á eigin hlutum. Uppgjör viðskiptanna fer fram á mánudaginn, 28. mars.

Hvað varðar næstu skref Bankasýslunnar þá fékk stofnunin heimild síðasta föstudag frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, til að selja eftirstandandi hlut í Íslandsbanka fram til loka árs 2023. Í greinargerð Bjarna um söluna segir að stefnt verður að því að selja um það bil helming af eftirstæðum hlut ríkissjóðs í bankanum, sem var þá 65%, á þessu ári og hinn helminginn á því næsta. Ekki er því ólíklegt að næsta skref sölu ríkisins á Íslandsbanka fari fram síðar á árinu.

Ríkissjóður á nú 42,5% af útistandandi hlutum í Íslandsbanka eftir að hafa selt 35% hlut í hlutafjárútboði síðasta sumar á tæplega 55 milljarða króna og 22% hlut í söluferlinu í gær á 52,7 milljarða. Alls hefur ríkið því fengið um 108 milljarða fyrir 57,5% hlut í Íslandsbanka.