Stjórn Þórkötlu hefur nú samþykkt kaup á 510 fasteignum í Grindavík að andvirði um 40 milljarða króna. Þar með er búið að samþykkja um 95% þeirra umsókna sem bárust í mars.

Greint var frá því fyrir rúmri viku síðan að stjórn Þórkötlu hefði samþykkt kaup á 263 fasteignum í Grindavík.

Í tilkynningu segir að samningar við lánveitendur húsnæðislána í bænum hafi ekki klárast fyrr en 21. apríl en þeir samningar voru forsenda fyrir því að félagið gæti hafist handa við kaup á eignum með áhvílandi lánum.

Í þessari viku hefur félagið gengið frá tæplega 300 kaupsamningum og sent til seljanda en andvirði þessara samninga er um 26 milljarðar króna. Í næstu viku verður byrjað á umsóknum sem bárust félaginu á fyrri helmingi aprílmánaðar sem eru samtals 121.

„Ég er ánægður með framgang mála og það sem við höfum áorkað síðustu vikur. Við höfum skilning á því að sá hópur sem hefur enn ekki fengið úrlausn sinna mála sé óþolinmóður en miðað við hversu vel hefur gengið að undanförnu erum við bjartsýn á framhaldið,“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu.

Þórkatla segir jafnframt að nokkur hluti umsókna hafi kallað á sérstaka skoðun af hálfu félagsins. Um er að ræða tilfelli þar sem brunabótamat hefur hækkað umtalsvert eða skráðum fermetrum fjölgað frá 10. nóvember síðastliðnum.

Þá fór fram sérstök skoðun á umsóknum þar sem fyrir lágu nýlegir kaupsamningar þar sem kaupverð er umtalsvert lægra en brunabótamat eignarinnar. Félagið mun einnig gera sérstaka úttekt á þeim húsum þar sem ekki liggur fyrir lokaúttekt byggingarfulltrúa.