Eitt af því fáa jákvæða við þá stöðu sem komin er upp í orkumálum þjóðarinnar er að fleiri láta sig orkumál varða. Orka, sama í hvaða formi hún er og hvað hún kallast, er mikilvægasta hráefni hagvaxtar, velsældar og bættra lífskjara.

Líkt og fram hefur komið höfum við Íslendingar komið okkur upp ólýsanlega flóknum kerfum og ferlum þegar kemur að uppbyggingu raforkukerfisins. Allt er stopp. Afleiðingin er sú að fyrir Alþingi liggur frumvarp á Alþingi sem færir hinu opinbera skömmtunarvald með raforku í sovéskum stíl.

Í samantekt Landsnets um afljöfnuð íslenska raforkukerfisins, sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu og birt var í febrúar 2023, sagði meðal annars: „Niðurstöður greiningarinnar sýna að raforkukerfið er þegar komið að þolmörkum og er ekki í stakk búið til að mæta aukningu álagstoppa.“ Vandamálið hefur lengi legið fyrir. Viðbrögðin engin. Úr því sem komið er spyrja menn sig: Hvað er til ráða? Hvernig leysum við málið sem fyrst?

Fyrir liggur að uppbygging á flutningskerfi raforku hefur ekki síður verið vanrækt en uppbygging aukinnar orkuframleiðslu. Uppsett afl Blönduvirkjunar er um 150 MW, en virkjunin er engu að síður jafnan keyrð á 50-90% af fullri vinnslugetu. Er það einkum vegna flutningstakmarkana frá norðurhluta landsins til suðvesturhornsins.

Þær framkvæmdir í flutningskerfinu sem upp á vantar til að hægt sé að flytja alla strandaða orku að norðan og austan (frá Fljótsdals-, Kröflu-, Þeistareykja, Laxár- og Blöndustöð) er að styrkja flutningskerfið frá Akureyri til suðvesturhornsins. Í áætlun Landsnets er gert ráð fyrir að uppbyggingin sé í þremur hlutum. Frá Akureyri til Blöndu, frá Blöndu upp á Holtavörðuheiði og frá Holtavörðuheiði til Brennimels eða Klafastaða í Hvalfirði. Þessar framkvæmdir myndu að óbreyttu losa hið minnsta 50 MW að norðan til suðvesturhornsins. Flutningsgeta suður yfir heiðar myndi hins vegar aukast nokkuð meira en svo. Það opnar möguleika á meiri vinnslugetu, til dæmis með stækkun á Þeistareykja, Blöndulundar eða eða fleiri virkjana í Blönduveitu. Aukin vinnslugeta á Suðurlandinu eða suðvesturhorninu (Hvammsvirkjun, Búrfellslundur, Hengillinn) myndu líka auka svigrúm og snúa stöðunni til betri vegar. En óháð því hvort farið verði í virkjanaframkvæmdir eða styrkingu flutningskerfisins, þá taka allar þessar framkvæmdir nokkur ár. Í kerfisáætlun Landsnets er gert ráð fyrir þriggja ára framkvæmdatíma fyrir hvern legg (þ.e. Blöndulínu 3 og Holtavörðuheiðarlínur 1 og 3). Varasamt væri að vonast eftir að þetta ferli taki styttri tíma en svo.

Landsnet þarf einnig lögum samkvæmt að vinna eftir tekjumörkum. Allar framkvæmdir smitast því yfir í gjaldskrána og þar með til núverandi notenda. Sem munu eflaust ekki sitja þegjandi yfir skarpri hækkun á flutningskostnaði sökum uppbyggingar sem er þeirra viðskiptum við Landsnet óviðkomandi.

Því er ekki endilega víst að neyðarlög um styrkingu flutningskerfis séu umtalsvert skjótvirkara úrræði en að setja allt púður í Hvammsvirkjun og aðra virkjunarkosti suðvestanlands. Bygging Hvammsvirkjunar og ofangreind styrking flutningskerfisins hefðu sambærilegan framkvæmdatíma. Fljótlegast er líklega að reisa Búrfellslund sem hægt er að tengja flutningskerfinu með einföldum hætti, enda nærri Búrfellsvirkjun. En þá verður líka að muna að tenging vindorku í kerfið býr til ný vandamál. Vindorka kallar á aukningu í stýranlegri framleiðslu (vatnsafli eða jarðhita), enda er vindorka ótrygg í eðli sínu.

Staðan í dag er sú að Ísland er komið langt eftir á við uppbyggingu flutnings- og framleiðslukerfis raforkukerfisins. Ólíklegt er að úrbætur taki skemmri tíma en þrjú til fimm ár. Eina skyndilausnin er sú að draga úr álagi á kerfið, en tapaðar tekjur sem fylgja þeirra nálgun eru margfaldar á við kostnaðinn vegna fjárfestingar í betri flutningi og aukinni framleiðslu.

Jóhannes Nordal, sem þá var stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði við lagningu hornsteins Búrfellsvirkjunar 3. júní 1968 að „með upphafi þessara framkvæmda væru Íslendingar að hefja nýtt landnám“. Nú tæpum 55 árum síðar hefur of stór hluti stjórnmálastéttarinnar misst sjónar á því hverjar eru undirstöður lífskjara hér á landi. Sá hópur fólks verður dæmdur af sögunni fyrir afstöðu sína. Sem er afstaða gegn áframhaldandi vexti lífskjara og afkomu íslensku þjóðarinnar.