Þegar kemur að tekjumódeli hlaðvarpa eru nær undantekningalaust farnar tvær leiðir. Annaðhvort er hlaðvarpið frítt, en með auglýsingum, eða það er eins konar áskriftarmódel þar sem hlustendur greiða ákveðna upphæð í hverjum mánuði. Allur gangur er á þessu á hlaðvarpsmarkaðnum hér á landi, en síðarnefnda fyrirkomulagið hefur þó færst í aukanna að undanförnu.

Dr. Football hefur ávallt verið ókeypis, en með auglýsingum. Hjörvar Hafliðason, maðurinn á bak við hlaðvarpið, segir það aldrei hafa komið til greina að fara hina leiðina, þ.e. að setja Dr. Football í áskrift.

„Nei ég sé það ekki fyrir mér. Mögulega ef ég færi að gera einhverja sérþætti, eins og seríurnar sem ég gerði. Þættir sem ég væri stoltur af því að selja væru þáttaseríur eins og „Doc Sports Business“ eða „HM: Sagan öll með Stefáni Pálssyni“. En ég myndi aldrei rukka fólk fyrir að heyra hvað mér finnst um 2-1 sigur Chelsea á Aston Villa.“

Hjörvar skynjar það að fólk sé frekar til í léttar og skemmtilegar auglýsingar en að greiða fyrir hlaðvarpið. Það hafi virkað vel til þessa.

„Fólk fyrirgefur auglýsingarnar gegn því að ég er ekki að rukka fyrir hlaðvarpið, þetta er hluti af samningnum. Þar fyrir utan eru þetta líka bara vörur sem ég fíla.“

Spurður út í auglýsingamarkaðinn segir hann að samstarfið í kringum hann hafi að mestu leyti komið af sjálfu sér.

„Það var fyrst og fremst brennandi áhugi á fótbolta sem ýtti mér út í þetta. Ég laug því að Macron Skútuvogi, Iceland Engihjalla og fleiri væru með mér, það var enginn með mér í liði til að byrja með. Þau höfðu síðan samband og fannst gaman að fá kynningu og varð þá til samstarf. Þetta hefur verið frekar náttúrulegt, og allir þeir sem hafa farið í samstarf með Dr. Football hafa grætt meira á því en ég.“

Fjallað er nánar um Dr. Football í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun, 21. júlí.