Þetta leggst mjög vel í mig. Það er mikið af flottu og hæfileikaríku fólki í Borgarleikhúsinu. Auk þess er mikill sköpunarkraftur og líf í húsinu þannig mér finnst frábært að vera komin þar til starfa og fá að vera partur af þessum hópi.“ segir Guðný Steinsdóttir nýr markaðsstjóri Borgarleikhússins.

Þá segir hún Borgarleikhúsið spennandi vettvang til að starfa á. „Fyrir mig sem markaðsmanneskju þá er þetta mjög spennandi vettvangur. Það er mjög áhugavert að markaðssetja upplifun og ég held að það séu miklir möguleikar í leikhúsi. Í þessum heimi þar sem við erum sítengd við tækin og símana þá er frábært að sleppa tækjunum og fara í leikhús.“ Áður starfaði Guðný sem markaðsstjóri Mjólkursamsölunnar en þar á undan við markaðsrannsóknir og birtingarráðgjöf. Guðný telur að sú reynsla mun nýtast henni vel í nýju starfi. „Ég þekki allt markaðsferlið mjög vel. Allt frá hugmynda- og stefnumótunarvinnunni til framleiðslu á efni og markaðssetningunni sjálfri.“

Fram undan er kraftmikið og fjölbreytt leikár hjá Borgarleikhúsinu. „Í haust erum við að frumsýna Bara smá stund á stóra sviðinu í haust og Á eigin vegum á litla sviðinu“ segir Guðný. Þá er Borgarleikhúsið að hefja samstarf við Jómfrúna með veitingar. „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og það mun án efa vekja mikla lukku á meðal leikhúsgesta. Við leggjum mikla áherslu á heildarupplifun gestanna, bæði að hún sé skemmtileg og þægileg. Við gerum ráð fyrir að þetta samstarf muni bæta upplifunina.“

Guðný segir að Covid faraldurinn hafi haft mikil áhrif á allar sviðslistir en hún er þó bjartsýn á að fólk sé tilbúið að snúa aftur í eðlilegt horf og mæta í leikhús. „Ég held að fólk sé tilbúið og í raun þyrst í að mæta á viðburði á borð við leikhús. Þannig að ég held að það verði mikið líf í leikhúsinu í vetur.“

Guðný er gift Páli Georgssyni sem starfar sem flugstjóri Icelandair en þau eiga tvo stráka á aldrinum 11 og 16 ára. Guðnýju finnst gaman að ferðast og stundar fjölbreytta útivist auk þess að vera mikill lestrarhestur og er alltaf með tvær til þrjár bækur í takinu. Á veturna finnst henni gaman að fara í skíðaferðir með fjölskyldu og vinum. Fram undan í sumar er fjölskylduferð til Kaupmannahafnar í vikunni og sumarbústaðarferð með stórfjölskyldunni en þar ætla þau að spila og njóta lífsins.

Viðtalið birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.