Allir hlutabréfamarkaðir sýna nú rauðar tölur. Í Asíu lækkuðu hlutbréf í morgun, hér heima hefur Úrvalsvísitalan lækkað, í Evrópu er allt rautt og í nú fyrir stuttu opnuðu markaðir í Bandaríkjunum og lækkuðu strax við opnun.

Hlutabréf hafa lækkað nokkuð í Evrópu frá opnun markaða í morgun og segir Reuters fréttastofan að lækkunina megi rekja til áhyggja fjárfesta af fjármálamörkuðum bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Þá hefur olíuverð lækkað hratt í gær og í dag sem dregur olíufélög nokkuð niður beggja megin Atlantshafsins.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur lækkað um 1,5% það sem af er degi. Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 1,6%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 1,4% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,7%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 1,6% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi hafa OMXC, OBX og OMXS vísitölurnar allar lækkað um 1,6%.

Lækkun á Wall Street

Nú eru rúmar 20 mínútur síðan markaðir opnuðu á Wall Street og hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað lítillega síðan þá.

Þannig hefur Nasdaq lækkað um 0,5% en Dow Jones og S&P 500 um 0,4%.

Það eru helst olíufélög sem leiða lækkanir en olíuverð hefur lækkað nokkuð hratt og kostar tunnan af hráolíu nú 107,76 dali.