Burðarás, KEA, Ólafur Jóhann Ólafsson, Talsímafélagið ehf. og Tryggingamiðstöðin hafa í sameiningu gert tilboð í 98,8% hlut ríkisins í Landssímanum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem forsvarsmenn Almennings ehf. sendu þeim, sem lýst höfðu áhuga á að fjárfesta í Almenningi, klukkan 17:47 í gær. Almenningur ehf. er hins vegar ekki aðili að tilboði hópsins eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Aðkoma félagsins er með þeim hætti að tilboð framangreinds hóps felur í sér samning við Almenning ehf. um að 30% hlutur í Símanum verði seldur til almennings á Íslandi í opnu útboði á sömu kjörum og fjárfestarnir koma til með að kaupa sína hluti á, að því undanskildu að kostnaður sem fellur til vegna tilboðsgerðar og útboðs fellur ekki á almenning heldur á fjárfestana. Efnt verði til þessa útboðs um leið og fært þykir að skrá Símann á markaði og eigi síðar en sex mánuðum eftir að kaupin fara fram.

"Þessi niðurstaða er okkur hjá Almenningi ehf. mikið fagnaðarefni," segir Agnes Bragadóttir stjórnarformaður Almennings ehf. í tilkynningunni. "Fái þessi hópur fjárfesta að kaupa Símann, þá hefur aðkoma almennings að Símanum verið tryggð, á sambærilegum eða jafnvel betri kjörum en fagfjárfestarnir kaupa á."

Agnes segir að forsvarsmenn Almennings ehf. treysti þessum hópi fjárfesta afar vel til þess að leiða Símann til aukins vaxtar og arðsemi.