Öryggi starfsmanna og hreinlætismálum er ábótavant hjá matvælafyrirtækinu Katsouris Fresh Foods, sem býr til tilbúna rétti og er í eigu Bakkavarar Group, samkvæmt umfjöllun síðastliðinn sunnudag í fréttaþættinum Five Live Report á bresku útvarpsstöðvinni BBC Radio Five Live. Í þættinum er meðal annars rætt við fólk sem hefur unnið hjá matvælafyrirtækinu og slasast alvarlega.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að umfjöllun BBC hafi komið til vegna beiðni frá breska verkalýðsfélaginu GMB. "Markmið GMB er að valda usla. Umfjöllunin er meira og minna röng og takmarkið er að rægja fyrirtækið," segir hann.

Ágúst segir vinnuslys alltaf eiga sér stað á stórum vinnustað sem þessum, en hins vegar séu vinnuslys sjaldgæfari hjá Bakkavör en sambærilegum fyrirtækjum í matvælageiranum í Bretlandi. "Við tökum vinnuslys mjög alvarlega og það er ekki skortur á skilningi stjórnenda á slíkum málum," segir hann.

Bakkavör birti tilkynningu á ensku á vef sínum, þar sem umfjöllun BBC er sögð misvísandi og ónákvæm. Fyrirtækið segist leggja mikla áherslu á velferð starfsfólks síns og öryggi framleiðsluvörunnar. Reglulegt eftirlit sé haft með starfseminni, hvoru tveggja af hálfu fyrirtækisins sjálfs og utanaðkomandi aðila. "Saga Katsouris Fresh Foods varðandi heilbrigðis- og öryggismál er samkvæmt British Safety Council ein sú bestu í atvinnugreininni og fyrirtækið er sífellt að betrumbæta framtak sitt í þeim efnum," segir í tilkynningunni.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.