„Það eru bara albestu menn sem ná að klára þetta,“ segir Árni Tómasson, formaður prófanefndar Félags löggiltra endurskoðenda (FLE). Fimm af þeim átta sem náðu prófi FLE sem löggiltir endurskoðendur í október í fyrra voru að þreyta það í fyrsta sinn. Hinir höfðu tekið það áður en fallið. Þessir átta sem komust í gegnum nálaraugað voru aðeins 24,2% þeirra sem tóku prófið. Skráðir voru 33 og féllu því 25. Þeir sem náðu þurftu að fá 7,5 í lágmarkseinkunn. Alla jafna hefur um þriðjungur þeirra sem taka löggildingarprófin hjá FLE náð þeim í gegnum árin.

Af þessum 8 sem náðu prófinu voru sex frá Deloitte og KPMG og hinir tveir frá PWC og Ernst & Young. Af 33 umsóknum voru 24 frá fjórum stærstu stofunum og 9 frá ýmsum öðrum, að því er fram kemur í erindi sem Árni hefur tekið saman um prófin.

Sextán klukkustunda próf

Löggildingarprófinu var á árum áður skipt upp í fjögur aðskilin próf og skráðu þeir sem það vildu þreyta sig í hvert þeirra eða tvö. Nóg var að ná einu prófi í hvert sinn. Breytingar voru gerðar á prófinu árið 2009. Næstu tvö árin þurfti að keyra prófin saman og í fyrra var endanlega búið að skella prófunum fjórum saman í eitt. Því átti að ljúka á 16 klukkustundum á tveimur dögum.

Árni segir prófgögnin gríðarlega mikil að umfangi, með fylgigögnum telji þau um 300 blaðsíður og þurfi þeir sem þreyti prófið að vera vel að sér um ýmsar hliðar endurskoðunar.

„Menn svitna vel yfir þessu. En útkoman var ekki alveg nógu góð,“ segir Árni í samtali við vb.is.