Kynningarátak um karlmenn og krabbamein sem haldið var dagana 5. til 21. mars gekk framar vonum samkvæmt tilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands.

Aðsókn karlmanna að Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins náði sögulegu hámarki í kjölfar átaksins auk þess sem viðbrögð fyrirtækja og almennings við sölu á slaufum í tengslum við átakið voru mjög góð. Jafnframt fjölgaði tímapöntunum hjá þvagfæraskurðlæknum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi verulega í kjölfar átaksins.

Átakið var hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Auk þess að bjóða slaufur til að vekja athygli á mikilvægi þess að karlmenn séu vakandi fyrir einkennum krabbameins var vefurinn www.karlmennogkrabbamein.is opnaður, kynningarbæklingi dreift í öll hús á landinu og málefni tengd karlmönnum og krabbameini kynnt í fjölmiðlum.

Samkvæmt mælingum Capacent tóku karlmenn mjög vel eftir kynningarefninu og sýndu því mikinn áhuga. Markmið átaksins er að karlmenn fylgist betur með einkennum krabbameins og leiti fyrr greiningar, því miklu máli skiptir við meðferð krabbameins að það greinist eins fljótt og hægt er.

„Það hefur verið ótrúleg aðsókn karlmanna að Ráðgjafarþjónustunni síðustu vikur og greinilegt að átakið vakti marga til umhugsunar um heilsufar sitt. Viðbrögðin í þjóðfélaginu hafa verið afar góð og greinilegt að nauðsyn var á að opna umræðuna um krabbamein karla meira en verið hefur. Einnig voru fyrirtæki sérstaklega dugleg við að kaupa slaufur fyrir starfsmenn sína og styrkja með því átakið og eins tók almenningur slaufusölunni vel,“ segir Gústaf Gústafsson, markaðsstjóri Krabbameinsfélags Íslands í tilkynningunni.

„Það hefur lengi verið áhugaefni okkar hjá Krabbameinsfélaginu að vera virkari í forvörnum gegn krabbameinum karla. Því miður er ekki hægt, enn sem komið er, að bjóða heilbrigðum körlum hópleit að blöðruhálskirtilskrabbameini sem er algengasta krabbamein karla. Hins vegar er mikið ánægjuefni að brátt verður hafin hópleit að þriðja algengasta krabbameini bæði karla og kvenna, ristil- og endaþarmskrabbameini. Það er því ánægjulegt hve vel karlmenn brugðust við þessu fræðsluátaki og vonandi sýna þeir jafnmikla árvekni áfram og sinna hópleitinni þegar hún hefst,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Að meðaltali greinast árlega um 630 íslenskir karlar með krabbamein, þar af 190 með krabbamein í blöðruhálskirtli, 64 með lungnakrabbamein og 51 með ristilkrabbamein. Horfur þeirra sem greinast með krabbamein á Íslandi eru almennt góðar en þegar menn eru komnir yfir fertugt aukast líkurnar á því að fá krabbamein.

Kaupþing var aðalstyrktaraðili átaksins en samstarfsaðilar voru Margt smátt, Sambíóin, Frumherji, Eymundsson, Kaffitár og Pósturinn.