Lykillinn að Almenna lífeyrissjóðnum var kynntur á ársfundi sjóðsins sem haldinn var á Hótel Nordica í dag. Lykillinn er reiknivél fyrir lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar geta tengst í gegnum heimasíðu sjóðsins.

Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins segir í tilkynningu frá sjóðnum Lykilinn fela í sér byltingu í upplýsingagjöf til sjóðfélaga og að með honum skapi Almenni lífeyrissjóðurinn sér skýra sérstöðu meðal lífeyrissjóða hér á landi.

Með Lyklinum geta sjóðfélagar með skjótum og einföldum hætti séð stöðu sína á hverjum tíma, áætluð eftirlaun og áfallalífeyri í hlutfalli við laun.

Lykillinn birtir mat sjóðsins á stöðu einstaka sjóðfélaga ásamt ábendingum um hvernig viðkomandi getur bætt stöðu sína ef talin er þörf á því.

Þá gerir Lykillinn sjóðfélögum kleift að meta hvort núverandi lífeyrissparnaður nægi til að tryggja þeim ásættanleg eftirlaun og hvort þeir séu nógu vel varðir fyrir hugsanlegum tekjumissi vegna örorku.

Ennfremur sýnir Lykillinn ráðgjöf um ávöxtunarleiðir fyrir lífeyrissparnað. Í Lyklinum eru notuð umferðaljós til að sýna hvort staða sjóðfélaga er ásættanleg eða ekki. Ef sjóðfélagi er á rauðu eða gulu ljósi bendir Lykillinn á leiðir til að bæta stöðuna svo komast megi á grænt ljós.

Samkvæmt tilkynningu frá sjóðnum munu allir sjóðfélagar fá send aðgangsorð að Lyklinum og USB lykil með kynningarmyndbandi með upplýsingum og ráðgjöf.

Gunnar Baldvinsson segir Lykillinn og myndbandið vera metnaðarfyllstu tilraun lífeyrissjóðs til að upplýsa sjóðfélaga um núverandi stöðu og leiðir til að tryggja þeim ásættanleg eftirlaun eða áfallalífeyri við tekjumissi.