Jenið styrktist á mörkuðum í nótt og fór í fyrsta sinn síðan Bretar ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið undir 100 jen fyrir hvern Bandaríkjadal. Náði það mest að vera 99,55 jen fyrir dalinn, en svo veiktist það á ný og fást nú 100,07 jen fyrir dalinn.

Evran fór lægst niður í að vera andvirði 112,65 jena, áður en jenið veiktist á ný og er evran nú andvirði 113,26 jen. Breska pundið fór lægst niður að vera andvirði 130,02 jena, en er nú andvirði 130,73 jena.

Fundargerð sýnir óeiningu stefnumörkunarnefndar Seðlabankans

Í ljós kom þegar fundargerðir stefnumörkunarnefndar bandaríska seðlabankans frá 26.-27. júlí urðu opinberar að nefndarmenn voru ekki sammála um hvenær ætti að hækka vexti, en væntingar voru um að það gæti gerst strax í september.

Olli það vonbrigðum sumra fjárfesta sem höfðu vonast eftir harðari aðgerðum, en þær munu velta á frekari gögnum um hagvöxt, ráðningar og verðbólgu. Áhyggjurnar leiddu til kaupa á japanska jeninu sem áltið er örugg höfn að sækja í.

Þróun helstu vísitalna á svæðinu í nótt:

  • Nikkei vísitalan í Japan féll um 1,55%
  • Kospi vísitalan í suður Kóreu hækkaði um 0,57%
  • Taiwan Weighted vísitalan hækkaði um 0,05%
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,92%
  • Dow Jones vísitalan í Kína lækkaði um 0,16%
  • FTSE China A50 vísitalan lækkaði um 0,49%
  • S&P/ASX 200 vísitalan í Ástralíu lækkaði um 0,49%
  • Dow Jones New Zealand vísitalan hækkaði um 0,43%