*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 11. október 2018 16:26

Bann við kjötinnflutningi ólöglegt

Hæstiréttur hefur staðfest að bann við innflutningi á fersku kjöti frá EES brjóti í bága við samninginn og sé ólöglegt.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags Atvinnurekenda.
Haraldur Guðjónsson

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ferskra kjötvara, þess efnis að bann við innflutningi á fersku kjöti frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins brjóti í bága við EES-samninginn og sé ólöglegt. Sagt er frá þessu í grein á vef Félags atvinnurekenda.

Dómur Héraðsdóms féll í nóvember 2016. Í nóvember í fyrra féll dómur EFTA-dómstólsins, þar sem komist var að skýrri niðurstöðu um að bæði bannið við innflutningi á fersku, ófrosnu kjöti og bann við innflutningi á ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk frá ríkjum EES gengi gegn samningnum.

„Það hefur legið fyrir árum saman að íslensk stjórnvöld hefðu vísvitandi brotið EES-samninginn og að þetta mál væri fyrirfram tapað, eins og Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra viðurkenndi raunar á fundi Félags atvinnurekenda fyrr á árinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Síðasta tylliástæða stjórnvalda til að bíða með að fella bannið úr gildi er nú úr sögunni. Félag atvinnurekenda hvetur ráðherrann eindregið til að grípa þegar í stað til aðgerða til að aflétta þessu ólöglega og óþarfa banni.“