Hagfræðideild Landsbankans spáir kröftugri viðspyrnu en áður var búist við í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá fyrir árin 2021-2024. Spáin verður kynnt á fundi bankans sem stendur frá 8:30-9:45 og fylgjast má með í spilaranum hér að neðan.

Fylgjast má með fundinum í beinni útsendingu hér:

Þannig spáir bankinn 5,1% hagvexti á þessu ári og 5,5% hagvexti á næsta ári en 1,7% árið 2023 og 2% árið 2024. Áætlað er að verg landsframleiðsla nái sama stigi og fyrir faraldurinn undir lok næsta árs.

„Efnahagsbatinn er hafinn af fullum krafti og það er nokkuð bjart framundan. Ferðaþjónustan er vöknuð úr dvala, horfur eru á sérstaklega góðri loðnuvertíð og ýmis ytri skilyrði eru okkur hagfelld. Atvinnuleysi minnkar hratt og við gerum ráð fyrir að árið 2024 verði atvinnuleysi minna en það var áður en faraldurinn skall á," segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans um spána.

„Við stöndum engu að síður frammi fyrir ýmsum áskorunum. Ein sú stærsta er að rétta af hallann á ríkissjóði sem hefur tekið á sig miklar byrðar. Þá mun kröftugur efnahagsbati og þrálát verðbólga knýja á um töluverða hækkun stýrivaxta, áður en aðstæður skapast til að lækka þá á nýjan leik," segir Daníel enn fremur.

Meðal þess sem fram kemur í spánni er að aukinn loðnukvóti á næsta ári muni hafa 1,7 prósentustiga jákvæð áhrif á hagvöxt, að öðru óbreyttu. Þá er gert ráð fyrir 1,5 milljónum ferðamanna á næsta ári en þónokkrum launahækkunum, að atvinnuleysi verði um 4,7% að meðaltali á næsta ári en lækki niður í 3% seint á næsta ári og stýrivextir haldi áfram að hækka upp í 4,25% árið 2023 þegar verðbólga fari niður í verðbólgumarkmið.

Dagskrá fundar um þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans sem stendur frá 8:30-9:45.

  • Lilja B. Einarsdóttir , bankastjóri Landsbankans, setur fundinn.
  • Þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans 2021 - 2024. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.
  • Hefur toppnum verið náð? Þróun og horfur á fasteignamarkaði. Una Jónsdóttir, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans.
  • Tekist á við byltingu: Eftirköst faraldursins og áhrif hans að flýta breytingum sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Paul Donovan, aðalhagfræðingur hjá UBS banka (UBS Global Wealth Management).