„PíR [Píratar í Reykjavík, innsk. blm.] hafði stjórnarfund í gær og komst að þeirri niðurstöðu að business modelið okkar ætti að vera að fá sem mestar tekjur frá ríkinu. Þar fáum við mest áhrif og miklu meiri tekjur en frá fjáröflun. Ná inn mönnum í öllum sveitarfélögum, öllum þröskuldum. Besta return on investment er í kjörnum fulltrúum.“

Þetta segir í fundargerð frá framkvæmdaráðsfundi Pírata sem haldinn var þann 8. janúar síðastliðinn. Orðin er að finna undir liðnum „önnur mál“ þar sem rætt var um hvernig flokkurinn gæti aukið við tekjur sínar.

Langtímafjármögnun veltur á atkvæðum

Viðskiptablaðið hafði samband við Helga Hrafn Gunnarsson, þingmann Pírata, til þess að fá nánari útlistingu á þessari fjáröflunarstefnu en hann var fundarstjóri á fundinum. Hann segir að um sé að ræða hugmynd sem komi frá stjórn Pírata í Reykjavík, en sjálfur situr hann ekki í stjórninni.

„Eins og ég skildi viðkomandi aðila á þessum fundi þá var verið að tala um að langtímafjármögnun flokksins ylti á atkvæðum og því væri skynsamlegast að nýta fjármagn til þess að sækja atkvæði. En auðvitað er það sjálfstætt markmið út af fyrir sig að ná sem flestum atkvæðum til þess að hafa sem mest áhrif, það segir sig sjálft,“ segir Helgi Hrafn.

„Sjálfum þykir mér hins vegar mikilvægara að nýta fé til að byggja undir grasrót flokksins, eins og til dæmis byggingu eins og nú er verið að gera, en þetta er í höndum framkvæmdaráðs.“

Mikilvægt að stjórnmálaflokkar geti fjármagnað sig

Aðspurður hvað honum finnist um ríkisstyrki til stjórnmálaflokka segir Helgi Hrafn að mikilvægt sé að flokkarnir geti fjármagnað sig.

„Í fljótu bragði finnst fólki þetta ekki sniðugt, en ef ríkið gerir þetta ekki verða stjórnmálaflokkar að fjármagna sig með styrkjum frá einhverjum úti í bæ sem kannski vill þá hafa einhver áhrif í staðinn. Þannig að mér finnst mikilvægt að það sé fjármögnun. En mér finnst líka mikilvægt að cut-offið sé lægra en 2,5%,“ en þar á hann við að stjórnmálaflokkur þurfi að fá að lágmarki 2,5% stuðning í kosningum til Alþingis til þess að hljóta ríkisstyrki, en fjárhæð þeirra ákvarðast svo af fylginu.

„Lýðræðishreyfingin lenti til dæmis dálítið illa í þessu þegar hún fékk 2,49% í síðustu kosningum sem þýddi þá að hún fékk enga styrki. Þetta er það sem átt er við í fundargerðinni. Það er ekki verið að tala um að sækja meira frá ríkinu á þessu kjörtímabili.“

Ekki í andstöðu við stefnu Pírata

Píratar hafa löngum lýst yfir andstöðu við það fjórflokkakerfi sem hefur verið við lýði á Íslandi, en margir telja það eiga rætur sínar að rekja til ríkisstyrkjakerfisins. Þannig gefi styrkirnir stjórnmálaflokkum tækifæri til þess að kynna sig betur í næstu kosningum á eftir og þeir séu því líklegri til þess að ná aftur kjöri. Spurður hvort þessi hugmyndafræði - að byggja fjáröflun Pírata fyrst og fremst á ríkisstyrkjum - sé í andstöðu við stefnu flokksins segir Helgi svo ekki vera. „Ég meina, við vorum skítblönk og náðum samt inn manni.“

En vill Helgi Hrafn þá afnema þröskuldinn?

„Ég sé enga ástæðu til að hafa hann í sjálfu sér. Ég hef reyndar ekki pælt mikið í því - kannski mætti hann vera um 1%. En það er erfitt að segja og þetta er dálítið viðkvæmt, ég hef ekki reiknað þetta út. Eiga menn til dæmis að geta lifað af þrasi þar sem þeir fá alltaf ríkisstyrki svo lengi sem einhver lítill hópur manna gefur þeim atkvæði sitt? Ég hef ekki reiknað þetta út,“ segir Helgi Hrafn að lokum.