Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins. Frá þessu var greint rétt í þessu. Hann hlaut 58,1% atkvæða. Kristján Þór Júlíusson hlaut 40,4% atkvæða.

Bjarni sagði er úrslitin voru kunn: „Ég er eins og skyr, ég er mjög hrærður." Vísaði hann þar til orða tengdaföður síns.

Geir H. Haarde, fráfarandi formaður, óskaði Sjálfstæðisflokknum til hamingju með nýjan formann og fundinum til hamingju með drengilega kosningu sem hefði verið báðum frambjóðendum til sóma.

Geir afhenti þar með Bjarna lykilinn að formannsherberginu í Valhöll, húsakynnum Sjálfstæðisflokksins.

Kristján Þór óskaði nýjum formanni til hamingju og þakkaði stuðning við sitt framboð. Hann kvaðst leggja áherslu á að flokkurinn stæði saman um hinn nýja ágæta góða dreng sem Bjarni Benediktsson væri. „Ég munstra mig í áhöfn Bjarna Benediktssonar. Kærar þakkir fyrir góðan stuðning," sagði hann.

Kjör til varaformanns er nú hafið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.