Björgólfur Thor Björgólfsson hefur aftur komist á lista Forbes yfir ríkustu menn heims, en hann hefur ekki verið á listanum síðastliðin fimm ár.

Þetta kemur fram á vefsíðu tímaritsins , og vermir hann að þessu sinni 1415. sæti listans. Björgólfur deilir sætinu með nokkrum öðrum.

Auður Björgólfs er metinn á 1,3 milljarða bandaríkjadala samkvæmt listanum, en fjárhæðin jafngildir um 173,5 milljörðum íslenskra króna.

Helsta eign Björgólfs er í Actavis, sem áður hét Watson og yfirtók rekstur íslenska lyfjafyrirtækisins Actavis.

Björgólfur var síðast á listanum árið 2009 og var hann þá í 701. sæti listans.

Lauk skuldauppgjöri í ágúst í fyrra

Björgólfur Thor sendi frá sér tilkynningu í ágúst í fyrra sem Viðskiptablaðið fjallaði um . Þar sagði að heildaruppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar og fjárfestingarfélags hans, Novators, við innlenda og erlenda lánardrottna væri  lokið.

Heildarfjárhæð greidd til lánardrottna var um 1.200 milljarðar króna. Allar greiðslur voru í erlendri mynt og voru engar skuldir gefnar eftir.