„Ég er ekki með neitt fast í hendi. En ég ætla að reyna að búa áfram á Íslandi,“ segir Björn Zoëga sem hefur sagt starfi sínu lausu sem forstjóri Landspítalans. Hann greindi Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra frá ákvörðun sinni munnlega fyrir nokkrum dögum.

Björn er berorður í bréfi sem hann birti á vef Landspítalans. Þar segir hann m.a. ekki hægt að ganga lengra í niðurskurðaraðgerðum.

„Ég get ekki tjáð mig um það fyrr en fjárlagafrumvarpið verður lagt fyrir. En það hefur verið talað um niðurskurð í þessu frumvarpi á málaflokknum í heild. En það er ómögulegt er skera eitthvað á Landspítalanum. Það er kominn tími til að byggja upp, endurnýja innviðina og fara af stað aftur. Ég vona að einhver annar geti leitt spítalann í gegnum það,“ segir Björn í samtali við VB.is.

Björn hættir ekki samstundis. Hann reiknar með að eftirmaður hans verðu fundinn fljótlega til að taka tímabundið við starfinu. „Á meðan mun ég verða þarna áfram og sinna mínum skyldustörfum. Síðan mun ég styðja viðkomandi til að taka við starfinu.“

Björn hefur fengið atvinnutilboð víða að í gegnum tíðina, m.a. þegar hann var forstjóri spítalans. Hann vonast til að geta unnið eitthvað áfram á spítalanum í hlutastarfi.