*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 4. mars 2021 10:25

Bolli les auglýsingu á Bylgjunni gegn Degi

Bolli Kristinsson varar þjóðina við að kjósa Samfylkinguna í útvarpsauglýsingu sem beint er gegn Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Ritstjórn
Bolli Kristinsson varar þjóðina við Samfylkingunni í næstu Alþingiskosningum.
Ómar Óskarsson

Nú ætlar Samfylkingin sér stóra hluti í næstu Alþingiskosningum. Er ekki nóg að horfa upp á Dag B. og co. eyðileggja Reykjavík? Ekki láta þau eyðileggja allt Ísland, “ segir í útvarpsauglýsingu sem Bolli Kristinsson athafnarmaður les og er meðal annars í spilun á Bylgjunni fyrir hönd hópsins Björgum miðbænum. Auglýsingin hefur áður verið birt á Facebook síðunni Opnum Laugaveginn og Skólavörðustíginn. 

 

Bolli baðst afsökunar á fyrri auglýsingu

Bolli baðst áður afsökunar á rangfærslum í myndbandi frá hópnum Björgum miðbænum sem Vigdís Hauksdóttir las inn á þar sem heimili Dags var sýnt í mynd og ranglega fullyrt að hann hefði keypt þrjú bílastæði af Reykjavíkurborg við heimili hans. Myndbandið var í kjölfarið fjarlægt. 

Bolli, Vigdís og aðrir sem komu að gerð auglýsingarinnar voru harðlega gagnrýndir, sér í lagi eftir að skotið var á bíl Dags við heimili hans. Dagur velti sjálfur upp hve langt mætti ganga í opinberi umræðu og sagði að heimili hans hefði verið gert að skotskífu í viðtali við RÚV.

„Þetta myndband er svo mikill viðbjóður. Svo andstyggilegt, ómálefnalegt og siðlaust. Fyrir utan afleiðingarnar sem það  gæti haft í för með sér þegar kjörinn fulltrúi hegðar sér með þesssum óábyrga og ósvífna hætti; marklaust og siðspillt. Ég fordæmi þetta.,“ sagði Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna meðal annarra á Twitter. 

Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar, gagnrýndi myndbandið einnig þegar það birtist í desember. Ekki fallegt að sjá sponsaðar auglýsingar þar sem keyrt er framhjá heimili borgarstjóra og það sýnt frá ólíkum sjónarhornum í dumbungsbirtu. Við getum verið ósammála um margt pólitík, til þess er hún, en að nota "drive-by" sem taktík finnst mér heldur óframbærilegt,“ skrifaði Pawel. 

Tengir Dag við stjórn Jóhönnu

Í auglýsingunni tengir Bolli Dag við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem var við völd árunum 2009 til 2013, þar sem Dagur var varaformaður Samfylkingarinnar samhliða því að vera borgarfulltrúi. Þá varar Bolli við Samfylkingunni í næstu Alþingiskosningum í haust. Ekki er þess þó að vænta að Dagur verði í framboði í Alþingiskosningunum, en auglýsingin hljóðar svo:

„Dagur B. Eggertsson var varaformaður Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og saman bjuggu þau til skjaldborg heimilanna þar sem tíu til fimmtán þúsund fjölskyldur voru bornar út af heimilum sínum og kannski tuttugu þúsund grátandi börn. Nú ætlar Samfylkingin sér stóra hluti í næstu Alþingiskosningum. Er ekki nóg að horfa upp á Dag B. og co. eyðileggja Reykjavík? Ekki láta þau eyðileggja allt Ísland.

Við kjósum ekki X-S, aldrei, aldrei.

Aðgerðarhópurinn Björgum miðbænum.

Bolli Kristinsson.“