Björk Guðmundóttir keypti í lok síðasta árs Sigvaldahús, sem stendur við Ægisíðu 80 í Vesturbænum í Reykjavík á 420 milljónir króna. Er það næst dýrasta einbýlishúsið sem selt var í fyrr en það dýrasta stendur við Sólvallagötu 14 . Sigvaldahúsið, sem var í eigu Guðbjargar Sigurðardóttur kvikmyndaframleiðanda, er 351 fermetri. Fermtraverðið var því tæplega 1,2 milljónir króna.

Húsið, sem var byggt árið 1958 og er á þremur hæðum, var í eigu Ellingsen -fjölskyldunnar um áratuga skeið. Það er teiknað af Sigvalda Thordarsyni arkitekt og þykir stílhreint og glæsilegt enda oft getið þegar rætt er um byggingalist á Íslandi. Árið 1999 var ytra borð hússins friðað samkvæmt tillögu húsfriðunarnefndar ríkisins. Það ár voru fimm hús valin til friðunar og var Ægisíða 80 eina íbúðarhúsið.

Í grein í Morgunblaðinu árið 2000 kemur fram að í hurðum í stofu og anddyri séu sandblásin glerlistaverk eftir Svavar Guðnason listmálara og listaverkin árituð af listamanninum. Hægt er skoða myndir af húsinu hér .

Þernunes 6

Einbýlishúsið við Þernunes 6 á Arnarnesi í Garðabæ er í þriðja sæti á listanum en söluverð þess nam 405 milljónum króna. Guðmundur Örn Þórðarson fjárfestir, sem var stór hluthafi í Skeljungi hér áður, keypti húsið af eignarhaldsfélaginu Bloom síðasta sumar en félagið er í eigu Kristínar B. Björgvinsdóttur. Húsið var byggt árið 2008 og stendur á sjávarlóð norðan megin á Arnarnesinu með útsýni út á Kársnes. Húsið er 484 fermetrar þar af er um 60 fermetra tvöfaldur bílskúr.

Ásvallagata 8

Í fjórða sæti á listanum er einbýlishús við Ásvallagötu 8 í Reykjavík. Eyrún Lind Magnúsdóttir keypti húsið á 336 milljónir króna en hún er eiginkona Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel. Ásvallagata 8 er 286 fermetrar á tveimur hæðum með risi.

Pétur Ingimundarson byggingameistari teiknaði húsið árið 1926. „Húsið er eitt fínasta við Ásvallagötu. Það er skipstjóravilla með barokkgöflum og barokkkvisti,“ segir í bókinni Indæla Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson en Gísli Gunnarsson stýrimaður bjó lengi í húsinu. Þess má geta að í kjallara hússins var miðstöð Rauðsokkahreyfingarinnar á allra fyrsta skeiði hennar upp úr 1970.

Hrólfsskálavör 8

Einbýlishúsið við Hrólfsskálavör 8 á Seltjarnarnesi er í fimmta sæti á listanum. Húsið, sem er 323 fermetrar, var selt á 300 milljónir króna. Húsið stendur á sjávarlóð, sem er 946 fermetrar.

Fjallað er um dýrustu einbýlishúsin í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .