*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 23. desember 2020 17:02

Bréf Hampiðjunnar hækka mest

Hlutabréf Icelandair Group lækkuðu um 1,57% og Úrvalsvísitalan um 0,12%. Breska pundið styrktist um 1,2% gagnvart krónunni.

Ritstjórn

Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 1,8 milljörðum króna í 200 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 0,12% og stendur í 2.452 stigum. Alls hækkuðu hlutabréf sjö félaga sem skráð eru á aðallista Kauphallar Íslands en bréf sjö félaga lækkuðu. 

Mest lækkuðu bréf Icelandair, um 1,57% í 83 milljóna króna veltu. Bréf flugfélagsins standa í 1,57 krónum. Næst mest lækkuðu bréf Eikar um 0,8% í einungis fjögurra milljóna króna veltu.

Bréf Kviku banka hækkuðu mest eða um 1,33% í 240 milljóna króna veltu. Bréfin standa í 15,2 krónum og hafa hækkað um tæplega helming á síðustu þremur mánuðum. Markaðsvirði Kviku er um 32 milljarðar króna.

Á Firsth North markaðnum hreyfðust hlutabréf hjá einu félagi, Hampiðjunni. Bréf félagsins hækkuðu um 5,26% í 37 milljóna króna veltu og standa þau í 80 krónum hvert. Bréf fyrirtækisins hafa hækkað um 67% það sem af er ári. Hampiðjan var skráð á markað 1993 á genginu 1,25 krónur.

Breska pundið styrktist um 1,2% gagnvart íslensku krónunni í viðskiptum dagsins. Pundið fæst á 173 krónur en fékkst á 161 krónu í upphafi árs. Krónan styrktist um 0,28% gagnvart Bandaríkjadollara sem nú fæst á 128 krónur.

Heildarvelta með skuldabréf nam 2,3 milljörðum króna í 30 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa níu skuldabréflokka hækkaði en krafa eins flokks lækkaði. Mest hækkaði krafa verðtryggðra skuldabréfa Íslandsbanka sem eru á gjalddaga árið 2028 eða um níu punkta. Krafan stendur í 0,48 punktum.