Verktakar, verkkaupar og aðrir hagsmunaaðilar fjölmenntu á morgunverðarfund Viðskiptablaðsins, Samtaka iðnaðarins, Reykjavíkurborgar og Háskólans á Bifröst í morgun.

Um tvö hundruð manns mættu á fundinn sem haldinn var í nýjum sal framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar við Borgartún.

Fundurinn snerist um gæðastjórnun í mannvirkjagerð og kom greinilega fram á fundinum að víða þarf að taka til hendi til að bæta ástandið öllum til hagsbóta. Voru menn sammála um að brýn þörf væri á að halda þessar umræðu áfram. Er þegar hafin undirbúningsvinna meðal fundarboðenda sem miðar að ráðstefnuhaldi um þessi mál innan fárra vikna, þar sem breiðari hópur hagsmunaaðila yrði dreginn að borðinu.

Guðjóna Björk Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, flutti framsöguerindi þar sem hún greindi frá niðurstöðum rannsókna sinna sem hún tók saman í lokaritgerð við Háskólann á Bifröst.

Lagði hún mikla áherslu á að breyta þyrfti hugsunarhætti allra þeirra sem að mannvirkjagerð koma því víða væri pottur brotinn.

Tími til að moka hauginn

Ferdinand Hansen, verkefnastjóri hjá Samtökum iðnaðarins, frá reynslu SI við að innleiða gæðastjórnun meðal sinna félagsmanna með misjöfnum árangri og varpaði fram spurningu um hvernig staðan yrði að tíu árum liðnum.

Sagði hann verulega skorta á að stjórnendur fyrirtækja tækju gæðastjórn alvarlega og skýlu sér á bak við undirmenn og sendu þá á námskeið til að bæta ímynd fyrirtækja sinna. Sagði hann ekkert skorta á að fjöldi manna teldi sig sérfræðinga á þessu sviði.

„Gæðastjórnun hefur verið haldið á mjög háfleygu plani. Það hefur verið til fullt af sérfræðingum, en afskaplega fáir notendur. Menn hafa jafnvel ekki viljað gefa mikið af sér til að gera ekki alla hina að jafn miklum sérfræðingum og þeir eru sjálfir.

Ég hef oft lýst þessu þannig að þetta er eins og sandhaugur sem þarf að fjarlægja. Það er búið að stinga skóflu í miðjan hauginn og sérfræðingarnir labba hring eftir hring og „spekúlear” í því og „diskútera” hvort það þurfi nú ekki að lengja skaftið, breikka blaðið og annað slíkt, - en engum þeirra dettur í huga að fara að moka.  Nú held ég að það sé kominn tími til að fjarlægja hauginn og fara að moka!“

Eyjólfur Bjarnason, gæðastjóri hjá ÍAV, lýsti sýn verktakans á gæðastjórnun, en ÍAV vinnur nú að því að fá vottun vegna innleiðingar á ISO 9001-gæðastaðlinum.

Eyjólfur hefur víðtæka reynslu á þessu sviði af vinnu sinni fyrir verktaka, Samtök iðnaðarins og sem tæknifræðingur sveitarfélags. Hann réð sig til ÍAV fyrir um ári og sagði að það hafi verið meðvituð stefna hjá fyrirtækinu að innleiða gæðastjórnun og vinna að því að fá vottun samkvæmt ISO9001 gæðastaðli.

Ástæðan væri einfaldlega sú að með því væru menn að sækjast eftir bættri almennri stjórnun, betra utanumhaldi og verkgæðum og síðast en ekki síst auknum hagnaði.

Fundarstjóri var Einar Svansson, aðjúnkt við Háskólann á Bifröst, sem þekkir gæðamálin frá víðum sjónarhóli, úr kennslu , ráðagjöf og úr atvinnulífinu sjálfu, m.a. í gegnum innleiðingu í fiskvinnslu.