Dómstoll í Haag hefur svipt Vísindakirkjuna því skattfrelsi sem hún fékk í Hollandi þegar hún skráði sig sem góðgerðarstofnun.

Dómstóllinn sagði að námskeið og meðferðir sem haldin væru á vegum kirkjunnar væru svo dýr að þau væru augljóslega haldin í hagnaðarskyni. Þar sem þau voru haldin í hagnaðarskyni uppfyllti kirkjan ekki skilyrði þess að vera góðgerðarsamtök. Námskeiðsgjöldin sem kirkjan var að innheimta af meðlimum kirkjunna voru hærri heldur en ýmsar hærri menntastofnanir voru að rukka, en dómstóllinn sagði að Vísindakirkjan hefði náð að safna töluverðum auð með þessari aðferð.

Vísindakirkjan var stofnuð af vísindaskáldsagnahöfundnum L. Ron Hubbard í upphaf 6. áratugarins en hún hefur verið víða gagnrýnd, m.a. í nýrri heimildarmynd sem bar heitið „Going Clear: Scientology and the Prison of Belief“.

Vísindakirkjan hefur mótmælt dómnum og segir þetta vera trúarlegar ofsóknir.