Brú II Venture Capital Fund hefur fjárfest fyrir sjö milljónir bandaríkjadala eða sem nemur 449 milljónum króna í sprotafyrirtækinu FS-10 ehf. sem er útgerðarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík. FS-10 var stofnað í þeim tilgangi að nýta íslenska sérfræðiþekkingu við útgerð stórra fiskiskipa á hafinu undan Máritaníu en stofnendur fyrirtækisins hafa víðtæka reynslu af sjávarútvegi.

Framkvæmdastjóri FS-10 ehf. er Sigurbjörn Svavarsson.

Brú er eini aðilinn sem fjárfest hefur í FS-10 en þetta var fyrsta hlutafjárútboð fyrirtækisins. Þetta er jafnframt fyrsta fjárfesting Brúar á sviði sjávarútvegs. Sigurður I. Björnsson og Herdís Fjeldsted önnuðust samninga vegna fjárfestingarinnar fyrir hönd Brúar.


Brú II Venture Capital Fund er fjárfestingasjóður sem fjárfestir í óskráðum og ört vaxandi fyrirtækjum. Fjárfestar sjóðsins eru: Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Gildi lífeyrissjóður, Stafir lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stapi lífeyrissjóður, Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., Tryggingamiðstöðin hf., Saxhóll ehf. og Nýsköpunarsjóður.