Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórnarinnar, er með stuðning 55% fylgi sem næsti borgarstjóri í Reykjavík, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið . Fylgi eykst við hann frá fyrri könnun en þá var hann með 48,1% stuðning kjósenda. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, nýtur stuðnings 22,7% kjósenda. Fram kemur í umfjöllun blaðsins að lítillega dregur úr stuðningi við Halldór en hann var með 25,2% fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar í febrúar.

Á eftir þeim Degi og Halldóri koma S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, með 8,2% fylgi og Sóley Tómasdóttir, oddviti VG með 3% fylgi. Eins og í tilfelli Halldórs dregur sömuleiðis úr fylgi þeirra. Björn var með 9,7% fylgi en Sóley 6%.

Fram kemur í könnuninni að fylgi eykst aðeins við þrjá frambjóðendur. Auk Dags eykst fylgi við Halldór Auðar Svansson, oddvita Pírata. Það fer úr 2,2% í 2,8%. Þá eykst fylgi við Óskar Bergsson, frambjóðanda Framsóknarflokksins í borginni. Það mælist nokkuð minna en fer úr 0,9% í 1,0%.