*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 10. nóvember 2011 14:28

FME kærir ákvörðun sérstaks saksóknara

Fjármálaeftirlitið hefur kært ákvörðun sérstaks saksóknara um að hætta rannsókn á starfsemi fimm lífeyrissjóða innan Landsbankans.

Hallgrímur Oddsson
Haraldur Jónasson

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur kært ákvörðun Embættis sérstaks saksóknara um að hætta rannsókn á starfsemi fimm lífeyrissjóða sem voru í eignastýringu hjá gamla Landsbankanum. Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi FME, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Kæran var lögð fram um miðjan síðasta mánuð. Unnur Gunnarsdóttir, yfirlögfræðingur FME, segir að með kærunni sé óskað eftir áliti Ríkissaksóknara um hvort snúa eigi við ákvörðun sérstaks saksóknara og að halda málinu áfram. FME leiti því til ákærustjórnvalds, sem sé æðra sett, sem geti ákveðið hvort hætta eigi rannsókn eða fara með það lengra.

Rannsókn Fjármálaeftirlitsins á sjóðunum nær aftur til bankahrunsins. Þá var gerð áhættugreining á öllum lífeyrissjóðum í landinu, til að meta hugsanlegt tjón þeirra af völdum bankahrunsins. Að athugun lokinni þótti ástæða til að rannsaka betur fimm lífeyrissjóði sem voru í eignastýringu Landsbankans. Um er að ræða sjóðina Íslenska lífeyrissjóðinn, Kjöl lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð Tannlæknafélags Íslands, Eftirlaunasjóð FÍA og Lífeyrissjóð Eimskipafélags Íslands.

FME sendi málið áfram til sérstaks saksóknara. Í lok september sl. tilkynnti Landsbankinn síðan að rannsókn á fjárfestingum sjóðanna hafi verið hætt. Í tilkynningu frá Landsbankanum í lok september var ákvörðuninni fagnað. „Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort stjórnendur og starfsmenn þeirra lífeyrissjóða sem til skoðunar voru, hafi á fyrri hluta árs 2008 farið út fyrir lagaramma um fjárfestingarákvarðanir og hvort upplýsingagjöf þar að lútandi til FME hafi verið ábótavant. Það var FME sem hóf rannsóknina og kærði síðar málið til sérstaks saksóknara. Rannsóknin hefur staðið yfir í á þriðja ár,“ segir í tilkynningunni.