George Papandreou forsætisráðherra Grikklands og Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
George Papandreou forsætisráðherra Grikklands og Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, bað í dag viðskiptaleiðtoga Þýskalands um að hjálpa Grikklandi við að leysa skuldavanda landsins. Hann sagði fjármögnun Þjóðverja ekki vera fjárfestingu í fyrri mistökum, heldur í árangri framtíðarinnar.

Forsætisráðherrann er staddur í Þýskalandi þar sem hann mun funda með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Umræðuefnið er árangur Grikklands við niðurskurð. Í ræðu sinni beindi Papandreou orðum sínum til leiðtoga þýska atvinnulífsins og sagði þá geta skipt sköpum fyrir Grikkland.

Af illa stöddum evruríkjum er fjárhagur Grikklands verstur. Í gær gladdi orðrómur um afskriftir helmings skulda landsins fjárfesta. Auk þess var talið að björgunarsjóður evruríkja yrði stækkaður. Ekkert hefur þó verið staðfest í þeim efnum, og leiðtogar ESB sagt að til standi að styrkja björgunarsjóðinn án þess að stækka hann.