Þingflokkur framsóknarmanna hefur samþykkt að verja nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna falli þrátt fyrir að ekki hafi unnist tími til að útfæra skilyrðin sem flokkurinn hafði sett fram. Þetta kom fram í viðtali Ríkisútvarpsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Framsóknarflokksins rétt í þessu, en hann var þá að koma út af þingflokksfundi.

Nokkurt karp hefur verið á milli Framsóknarflokksins og væntanlegra ríkisstjórnarflokka í dag og ekki var útséð með hvernig eða að minnsta kosti hvenær tækist að klára stjórnarmyndunina. Formaður Framsóknarflokksins hefur í dag meðal annars sakað Samfylkinguna um klækjastjórnmál en framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar hefur hafnað því. Eftir yfirlýsingu formanns Framsóknarflokksins virðist sem síðustu hindruninni hafi verið rutt úr vegi fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar.