Eftir fjárhagslega endurskipulagningu verða Framtakssjóður Íslands og Íslandsbanki langstærstu hluthafar í Icelandair Group með samtals ríflega 56% hlut.

Þar á eftir koma LSR og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, tveir stærstu lífeyrissjóðir landsins, með samtals fimmtán prósent hlut. Jafnframt eru verðbréfafyrirtæki fyrir hönd viðskiptavina og skilanefndir meðal stærstu hluthafa.

Beinn eignarhlutur lífeyrissjóða er þannig um 45% í Icelandair Group en ætla má að hluturinn fari yfir helming þegar óbeinir hlutir í gegnum þriðja aðila eru teknir með í reikninginn.

Í kynningu á hálfsárs uppgjöri Icelandair Group er birtur listi yfir stærstu hluthafa félagsins.

Hluthafafundurinn er svo útlítandi:

  • Framtakssjóður Íslands                 30,4%
  • Íslandsbanki                                     26,1%
  • Lífeyrissjóður verslunarmanna     10,1%
  • Landsbanki Íslands (skilanefnd)    6,0%
  • Lífeyrissjóðir Bankastræti                 5,1%
  • Glitnir Banki (skilanefnd)                  4,6%
  • Virðing hf.                                             3,5%
  • Sparisjóðabanki íslands                   2,4%
  • Stefnir ÍS-15                                         2,2%
  • Íslensk verðbréf hf.                             1,4%
  • Stefnir ÍS-5                                           1,1%
  • Aðrir hluthafar                                      7,0%

Áhugavert er að bera þennan lista saman við lista yfir 15 stærstu hluthafana frá því í maí 2009, stuttu eftir að Íslandsbanki og skilanefnd Landsbankans höfuð tekið yfir hluti í félaginu.

Um miðjan maí 2009 leysti Íslandsbanki til sín um 42% hlut í félaginu en fyrir átti bankinn 5%. Bankinn fékk við þetta undanþágu frá yfirtökuskyldu frá Fjármálaeftirlitinu. Þá var um leið tilkynnt að stefnt væri að sölu hlutanna.

Stærstur hlutir þess hluta sem Íslandsbanki leysti til sín var í eigu Fjárfestingafélagsins Máttar, sem átti 23,1% hlut í Icelandair Group, og Nausts sem átti 14,8%. Fjárfestingafélagið Máttur var í eigu Milestone, sem var í eigu Karls og Steingríms Wernerssona, og Einars Sveinssonar og tengdra fjárfesta. Framkvæmdastjóri Máttar var Gunnlaugur Sigmundsson, þá stjórnarformaður Icelandair Group. Naust var í eigu Einars Sveinssonar og tengdra fjárfesta.

Þann 25. maí 2009 tók skilanefnd Landsbankans yfir tæpan 24% hlut Langflugs (sem var í eigu Finns Ingólfssonar) í félaginu.

Á listanum sést hvernig hlutur Íslandsbanka hefur þynnst út um tæpan helming eftir að lífeyrissjóðirnir komu inn í félagið. Það er í takt við stefnu bankans. Að sama skapi hefur hlutur skilanefndar Landsbankans minnkað verulega, úr 24% í 6%. Sömu sögu er að segja af hlut Sparisjóðabankans sem hefur minnkað úr 9,4% í 2,4%.

Þá vekur athygli að hlutur skilanefndar Glitnis hefur aukist nokkuð frá því í maí 2009. Þá var hlutur skilanefndarinnar 2,1% en er nú 4,6%. Ástæðu þessa má rekja til þess að skilanefndin hefur, sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, breytt skuldum í hlutafé.

Hluthafalistinn í lok maí 2009 var þannig:

  • Íslandsbanki hf. (46,93%)
  • Skilanefnd Landsbankans.  (23,84%)
  • Sparisjóðabanki Íslands hf. (9,36%)
  • Alnus ehf. (3,3%)
  • Icelandair Group hf.  (2,55%)
  • Glitnir banki hf.  (2,09%)
  • Sigla ehf. (2,0%)
  • Saga Capital Fjárfestingarb anki hf. (1,97%)
  • Arkur ehf.  (1,75%)
  • N1 hf. (1,28%)
  • Stafir lífeyrissjóður (0,93%)
  • Almenni lífeyrissjóðurinn (0,66%)
  • Kaupfélag Suðurnesja (0,34%)
  • Landsbanki Luxembourg S.A. (0,29%)
  • DnB NOR Bank ASA (0,2%)