Gengislánadómur Hæstaréttar mun hafa jákvæð áhrif á virði Haga. Fyrirtækið fékk rúman hálfan milljarð í endurgreiðslu vegna endurreiknings á gengistryggðum lánum 8. desember í fyrra. IFS Greining segir að ætla megi að önnur greiðsla muni berast félaginu í kjölfar dómsins. Ekki sé hins vegar vitað hversu há sú upphæð verði.

IFS Greining bendir á það í umfjöllun sinni um áhrif gengislánadómsins á Haga að þegar félagið hafi fengið 500 milljónirnar endurgreiddar fyrir rétt rúmum tveimur mánuðum síðan hafi virðist vaxtaberandi lán þess lækkað sem nam upphæðinni og virði Haga aukist um 3%.

FME skoðar útboð Haga

Endurgreiðslan barst Högum degi eftir að hlutafjárútboði Haga lauk í desember þegar Arion banki seldi 30% hlut í félaginu til fagfjárfesta og almennings. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Fjármálaeftirlitið skoði nú framkvæmd og verklag við útboðið. Í blaðinu sagði jafnframt að ekki sé hægt að útiloka að FME hafi sjálft haft frumvæði að skoða útboðið enda kom fram veruleg gagnrýni á það í fjölmiðlum, m.a. í Viðskiptablaðinu, að upplýsingar um endurútreikninga lána hafi birst aðeins degi eftir að útboðinu lauk.

Engin tilkynning hefur borist frá Högum sjálfum varðandi áhrifa dómsins í gær á félagið.

Gengi hlutabréf félagsins hefur hækkað um 1,18% frá upphafi viðskiptadags í Kauphöllinni.

Nasdaq - Hagar
Nasdaq - Hagar
© BIG (VB MYND/BIG)
Finnur Árnason, forstjóri Haga, við skráningu félagsins á markað um miðjan desember á síðasta ári.