Greiningadeild Landsbankans segir að Kaupþing hafi í dag stigið mikilvægt skref með erlendri lántöku en eins og greint var frá í morgun tryggði Kaupþing sér 1,3 milljarð evra í langtímafjármögnun á góðum kjörum.

„Í umfjöllun Greiningardeildar um markaðinn hefur meðal annars verið bent á mikilvægi þess að einhver íslensku bankanna brjóti ísinn með erlendri lántöku. Við höfum gert ráð fyrir að fjármögnunarkjörin yrðu fremur slök en teljum að mestu máli skipti að sýna fram á að alþjóðlegur fjármagnsmarkaður sé opinn fyrir íslenska banka. Við teljum þetta því góðar fréttir fyrir alla íslensku bankana og innlendan hlutabréfamarkað almennt," segir í Vegvísi Landsbankans.

Skref í rétta átt

Þá segir greiningadeild Landsbankans fjármögnun Kaupþings vera hins vegar skref í rétta átt og mikilvægt framlag til að draga úr því sem kallað hefur verið „íslenska álagið."

Á hádegi hafði Úrvalsvísitalan hækkað um 0,64% og segir Landsbankinn það skýrast eingöngu vegna hækkana á Kaupþingi [ KAUP ] (1,52%), Glitni [ GLB ] (0,89%) og Landsbankanum [ LAIS ] (0,38%).

Markaðir í Evrópu hafa almennt lækkað í dag, fimmta daginn í röð.