Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Arctica Finance vegna stjórnvaldssektar FME frá september 2017. Sektin nemur 24 milljónum króna en hún kemur til vegna brota á lögum um kaupauka.

Í september 2017 lagði FME stjórnvaldssekt á Arctica Finance vegna brota gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og reglna sem settar voru á grundvelli þeirra laga. Að mati FME fólust brot Arctica í því að hafa greitt tilteknum starfsmönnum, sem áttu svokölluð B-, C- og D-hlutabréf í félaginu, kaupauka í formi arðs árin 2012-17. B-flokkur var fyrir starfsmenn á fyrirtækjasviði og starfsmenn eignastýringar og markaðsviðskipta áttu bréf í flokki C og D. Alls námu arðgreiðslur á tímabilinu um 715 milljónum króna.

Upphaflegar reglur um kaupauka voru settar á árinu 2011 en nýjar reglur samþykktar árið 2016. Stjórn Arctica sendi FME hvert ár tilkynningu að ekki stæði til að greiða út kaupauka en félagið greiddi aftur á móti út arð. Taldi FME að þar hefðu kaupaukagreiðslur verið klæddar í búning arðgreiðslna.

Eftirlitið rökstuddi þessa túlkun með því að engir aðrir en starfsmenn félagsins hefðu fengið að kaupa bréf í umræddum flokkum og þeir starfsmenn  eingöngu  fengið  að  kaupa  í  þeim hlutabréfaflokki sem tengdur hefði verið afkomu þeirrar deildar sem þeir störfuðu í. Umræddir hluthafar hefðu lagt 200 þúsund krónur í hlutafé en fengið í staðinn 715 milljónir í arð. Áhættan hefði því verið engin en hagnaðarvonin gífurleg.

Upphaflega sektin nam 72 milljónum króna en Landsréttur lækkaði sektina þar sem hann taldi refsiheimild laganna frá 2011 of almennt orðaða til að geta talist til gild refsiheimild.

Sektin ollið Arctica álitshnekki

Fram kemur að leyfisbeiðni Arctica hafi byggt á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það fjalli um skýrleika refsiheimilda og hvaða kröfur veri að gera til stjórnvalds þegar það tekur íþyngjandi ákvarðanir um beitingu refsikenndra viðurlaga.

„Enn fremur telur leyfisbeiðandi að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína en um sé að ræða stjórnvaldssekt  sem hafi ekki aðeins miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir sig heldur hafi jafnframt valdið honum álitshnekki,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.

Hæstiréttur taldi að ekki væri hægt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda. Auk þess taldi Hæstiréttur að dómur Landsréttar væri ekki bersýnilega rangur og því varbeiðni Artica hafnað.