*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 10. september 2020 11:58

Hafnarfjörður 700 milljónum undir áætlun

Tekjufall vegna heimsfaraldursins er sagt helsta ástæða 460 milljóna hallareksturs bæjarins.

Júlíus Þór Halldórsson
Miðbær Hafnarfjarðar.
Aðsend mynd

Afkoma Hafnarfjarðarbæjar var 708 milljónum undir áætlun á fyrri hluta ársins, og versnaði um 582 milljónir milli ára, en halli á rekstrinum nam 459 milljónum.

Lækkunina má samkvæmt tilkynningu samhliða birtingu árshlutareikningsins rekja til tekjufalls vegna heimsfaraldursins, en tekjur bæjarins námu 14,1 milljarði og voru 760 milljónum lægri en áætlað hafði verið, en jukust þó lítillega milli ára.

Launakostnaður nam 7,1 milljarði og jókst um 5,6% milli ára, en var hér um bil í takt við áætlanir. Þá voru hrein fjármagnsgjöld 963 milljónir króna, svipað og í fyrra en tæpum 150 milljónum hærra en gert hafði verið ráð fyrir. Rekstur málaflokka gekk að sögn vel á tímabilinu, og í takt við áætlanir.

Heildareignir bæjarins námu 61,2 milljörðum króna í lok júní og höfðu hækkað um 1,6 milljarða frá áramótum, en skuldir 47,4 milljörðum og höfðu hækkað um 2,1 milljarð. Eigið fé nam 13,8 milljörðum og eiginfjárhlutfall því 22,5% og lækkaði um 1,4 prósentustig.

Stikkorð: Hafnarfjörður